Morgunblaðið býður grunnskólabörnum upp á kennslu – í Morgunblaðinu! Á vef blaðsins má finna síðu þar sem námsefnið er kynnt, markmiðin útskýrð og verkefni framreidd til að auðvelda kennsluna. Markmiðin eru m.a. sögð vera þau að venja nemendur við lestur dagblaða, venja nemendur við að endursegja það sem fyrir augu bar við lesturinn og að nemendur kynnist vinnuferli við útgáfu dagblaðs. Allt gott og gilt. Námsefni miðast við nemendur í 3. bekk grunnskóla og eldri. Meðal verkefna yngstu barnanna er að finna glaðleg andlit og alvarleg og lýsa þeim hughrifum sem það kann að hafa vakið hjá nemendum. Hvaða andlit eru glaðleg í Mogganum og hver á alvarlegu andlitin? Börnunum er síðan kennt að greina á milli „góðra frétta og vondra“ ásamt því að æfa sig í að finna án fyrirhafnar fasta dálka í blaðinu.
Þegar komið er í 6. og 7. bekk er námsefnið farið að taka á sig skýrari mynd. Nú er blaðið m.a. skoðað út frá mikilvægi fyrirsagna, mikilvægar fréttir skoðaðar nánar og nemendur eiga að kunna á hvaða síðum allt helsta efni blaðsins er að finna.
Áður en börnin ljúka grunnskóla eiga þau að vera fullnuma í Morgunblaðinu. Nú eru skýr fyrirmæli: „Þegar þú vinnur verkefnin notar þú Morgunblaðið.“Allir eiga nú að vita nákvæmlega hvar má finna hvað í blaðinu, fyrirhafnarlaust. Nemendur eiga að muna hvenær Morgunblaðið var stofnað, hver gefur það út og – hvað ritstjórinn heitir! „Allir lesi leiðarann og ræða efni hans að því loknu“ eins og segir í verkefnum sem lagt er til að nemendur spreyti sig á. Allar myndir námsefnis, að tveim undanskildum, tengjast körlum með beinum eða óbeinum hætti.
Morgunblaðið er að stærstum hluta í eigu íslenskra útgerðarmanna. Morgunblaðinu er ritsýrt af fyrrverandi formanni sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Morgunblaðið er ekki hlutlaust blað. Morgunblaðið er flokksblað. Morgunblaðið er áróðursblað.
Margir skólar (jafnvel flestir?) hafa bannað eða takmarkað mjög dreifi- og kynningarrit utanaðkomandi aðila í skólum. Þetta á t.d. við um íþróttafélög, trúfélög, stjórnmálaflokka og hvers konar auglýsingar. Hvað margir skólar kenna Morgunblaðið? Í hvað mörgum skólum fá kennarar Morgunblaðið „skólum að kostnaðarlausu“ í hendur sem námsgagn? Hvernig er námsmati háttað við kennslu í Morgunblaðinu?
Hvað ef nemendur muna ekki hverjir gefa blaðið út?
Eða gleyma því hvað ritstjórinn heitir?