Eins og allir vita er tiltölulega auðvelt að blekkja og falsa opinberar tölur, ekki síst fjárlög og reikninga ríkisins. Í svona svindli þurfa reyndar nokkri þættir að ganga upp og gera það yfirleitt snurðulaust. Í grófum dráttum fer þetta svona fram:
Ríkisstjórnir þurfa að sammælast um hverja á að blekkja og hvernig. Í kjölfarið verður svo að upplýsa allt starfsfólk fjármála- og efnahagsráðuneytisins um fyrirhugaðar blekkingar og í hverju þær eru fólgnar. Þetta eru ekki nema rétt um áttatíu manns en aðalatriðið er að lykilmennirnir séu með í ráðum, þ.e. ráðuneytisstjórinn og skrifstofustjórar efnahagsmála, skattamála og opinberra fjármála.
Eins og allir vita þá dansa limirnir eftir höfðinu og því er eftirleikurinn auðveldur ef aðalmennirnir eru með í leiknum. Það er afar mikilvægt ef svona blekkingar eiga að ganga upp að allir taki þátt, annars er hætta á að allt komist upp. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gegnir algjöru lykilhlutverki að þessu leyti. Þar má enginn maður skorast undan eða vera með efasemdir.
Þar næst þurfa allir lykilstarfsmenn í öðrum ráðuneytum að vera vel með á nótunum um fyrirhugaðar blekkingar og standa sem einn maður að baki þeim. Þetta eru 550-600 manns og lykilmennirnir eru eftir sem áður ráðuneytisstjórar og skrifstofu- og deildarstjórar. Án þeirra er hætt við að lítið verði úr blekkingum.
Undir þessum ráðuneytum eru síðan fjölmargar stofnanir og þarf varla að fjölyrða um mikilvægi stjórnenda þeirra við að blekkja og falsa. Í því sambandi má nefna skólameistara framhaldsskóla, rektora háskóla og yfirmenn stofnana eins og vegagerðarinnar, lögreglunnar, tryggingastofnunar og fleiri slíkra. Þar gegna lykilmenn á hverjum stað líka mikilvægu hlutverki. Seðlabankinn spilar líka stóra rullu í svona blekkingarleik eins og allir vita og því mikilvægt að hafa hann sömuleiðis með.
Að lokum má svo nefna að vegna aðstæðna sem sköpuðust hér á landi haustið 2008 (stundum kallað Hrun) höfum við þurft að vera í allnánu samstarfi við önnur lönd og alþjóðasamtök. Má þar nefna Norðurlöndin og AGS í því sambandi. Þessir aðilar gegna þýðingarmiklu hlutverki í því að falsa tölur og blekkja almenning og fjármálastofnanir eins og gefur að skilja. Það skiptir því miklu að hafa þá við borðið frá upphafi til enda.
Eins og sjá má er það ekki mjög erfitt að blekkja og falsa opinberar tölur. Til þess þarf aðeins að sannfæra nokkur þúsund manns innlenda sem erlenda um mikilvægi blekkinga og lyga og málið er dautt.
Það væri mjög gagnlegt fyrir okkur öll ef góðir og gagnrýnir fréttamenn myndu kanna gildi fullyrðinga stjórnmálamanna um blekkingar og fals í stað þess að láta segja sér það gagnrýnislaust. Kannski kæmi þeim á óvart hvað þetta er auðvelt í framkvæmd.
Kannski ekki.
Comments
William Carver
29. október 2016 - 17:22
Permalink
Lesser sibling or possibly A variety of Twist Extruder.
The decision to purchase products from this company is
a bold decision that will bring to you many advantages. If you are
seeking for the best ways to find biodegradable plastic extruders to get custom
products for your company, contact Hall manufacturing.
my web page mixer extruder