Of mikil ábyrgð?

Sagt er frá því í fjölmiðlum að stjórnarandstaðan á Alþingi fái formennsku og varaformennsku í nefndum þingsins, líkt og um sérstaka greiðasemi sé að ræða af meirihluta þingsins. Það er nú öðru nær.
Í öðru kafla laga um þingsköp Alþingis er fjallað um nefndir og skipan nefnda. Þessum lögum var breytt á síðasta kjörtímabili til samræmis við tillögur þingmannanefndar sem kennd hefur verið við Atla Gíslason. Sú nefnd gerði ýmsar tillögur til úrbóta í þinginu í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á aðdraganda og orsök Hrunsins, sem einhverjir muna kannski eftir.
Megin þunginn í breytingum á þingsköpum var að styrkja hlutverk minnihlutans á þinginu og jafnframt að auka ábyrgð hans. Einn þátturinn í því var að minnihlutinn tæki að sér formennsku eða varaformennsku í nefndum ásamt þingmönnum meirihlutans. Forysta nefndanna myndi síðan verða stjórn þeirra sem myndi sjá um skipulag nefndastarfa, undirbúning mála og úrvinnslu þeirra.
Stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili, undir forystu sjálfstæðismanna neitaði að taka þátt í þessum breytingum og baðst undan formennsku og ábyrgð. Þessi afstaða ver tekin án frekari skýringa en það lá í orðum þeirra að þessu yrði breytt þegar þau kæmust aftur til valda.
Það fór því þannig að stjórnarandstaðan afþakkaði formennsku og varaformennsku í þingnefndum á síðasta kjörtímabili og kaus frekar að setja sig upp gegn öllum málum af hvaða tagi sem var til þess eins að skapa sem mestan glundroða í þinginu og samfélaginu. Þeim hefur líklega fundist of mikil ábyrgð fólgin í því að takast á við afleiðingar Hrunsins og því viljað koma sér undan því.
Enda málið skylt.

Comments

Þeir ætla ekki að sleppa þriðjudögunum í september. Þær ætla að sleppa september !!!