Hissari í dag en í gær!

Sigurður Ingi Jóhannsson segist undrandi á afstöðu almennings til frumvarps hans um lækkun veiðigjalda. Hann er helst á því að fólk skilji ekki málið eins og sjá má á þessum ummælum hans: „Ef við hefðum ekkert gert þá yrðu engin veiðigjöld á næsta fiskveiðiári. Vegna þess að lögin sem áttu að taka gildi 1. september næstkomandi eru óframkvæmanleg. Þannig að ef að undirskriftasöfnunin yrði til þess að það yrðu engin lög þá verða engin veiðigjöld.“
Ef það er þannig að lögin sem eiga að taka gildi 1. september nk. eru óframkvæmanleg vegna lagalegra atriða, þá má leysa það mál með tvennum hætti. Í fyrsta lagi að framlengja lögin eins og þau eru í dag um eitt ár og með óbreyttum veiðigjöldum og nota tímann til að leysa úr lagalegum flækjum. Í öðru lagi má leysa þá lagalegu hnökra sem ráðherrann segir vera á því að lögin geti tekið gildi. Þetta er ekkert mjög flókið.
Það er því til lítils fyrir ráðherrann að hóta almenning því að ekkert verði úr veiðigjöldum ef fólk lætur ekki af mótmælum, eins og hann gerði í kvöld.
Sanngjarnt veiðigjald sem tekur mið af arðsemi auðlindarinnar óháð rekstri fyrirtækjanna, er lykilinn að þeim hörðu deilum sem verið hafa um sjávarútveginn síðustu áratugina. Frumvarp Sigurðar Inga setur aukna hörku í þá deilu og gerir það að verkum að við verðum fjær því að finna ásættanlega lausn en nokkru sinni áður. Deilur á að leysa þannig að sem flestir geti við unað til framtíðar en ekki með þeim hætti sem lagt er til með veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Þetta skilur almenningur í landinu öfugt við ráðherrann Sigurð Inga Jóhannsson sem á örugglega eftir að vera meira hissari á löndum sínum á morgun en hann er í dag.

Comments

Guðrún Unnur Ægisdóttir's picture

Er þetta hreinræktaður bjáni, sem situr nú búralegur i ráðherrastól.  Það er engu líkara. Þar fyrir utan efast ég um að mér endist kjörtímabilið, til að setja á mig nöfn framsóknarþingmanna, hvað þá útlit.  Þetta er svo keimlikt. Allir eins og vel fram gengnir lambhrútar.

Níels Adolf Ársælsson's picture

Björn Valur.

Þið færðuð þessum molduxa ráðherrastólinn á silfurfati með aðgerðarleysi ykkar og takmarkalausum undirlægjuhætti við LÍÚ.

Anna María Sverrisdóttir's picture

Þetta er í sjálfu sér ekkert annað en helber dónaskapur í ráðherranum og lítilsvirðing fyrir vilja fólks.  Þó hann sjálfur hafi þá skoðun að það eigi helst jafnvel að greiða með veiðiheimildunum ætti hann að druslast til að sýna fólki lágmarksvirðingu þegar hann bregst við.  Hann veit mæta vel hver vilji þess fólks er sem skrifar undir.   Ef það eru lagatæknileg atriði sem standa í vegi fyrir því að veiðigjöld séu ekki lækkuð núna ætti hann að átta sig á, hafi hann hálfa hugsun, að þá verður að sjálfsögðu að laga þau atriði.  

Maðurinn hagar sér einsog dóni og raunar fleiri innan ríkisstjórnarinnar sem taka í sama streng.