Ég sé að færsla mín um kirkjuna hér að neðan hefur fengið talsverð viðbrögð. Til að byrja með er ágætt að hafa nokkra hluti á hreinu í þeirri umræðu frá minni hálfu.
Ég ber hlýjan hug til kirkjunnar fólks. Ég hef notið ágætrar þjónustu hjá kirkjunni á ýmsum sviðum. Börnin mín hafa verið skírð og fermd í kirkju og ég hef fylgt ættingjum og vinum til grafar og eitt barna minna var jarðsungið í kirkju. Ég er ekki tíður kirkjugestur en fer þó líklega oftar en margur mér „trúaðri“ á ýmsar athafnir á hennar vegum. Hef oftar en einu sinni haldið tónleika í kirkju og enn oftar hlýtt þar á góða tónlist. Ég hef fylgt börnum mínum í barnastarfi kirkjunnar og nú síðast sem afi. M.o.ö hefur lengst af farið ágætlega á með mér og kirkjunni. Það þýðir þó ekki að ég telji kirkjuna hafna yfir gagnrýni. Svo allt sé á hreinu þá er rétt að komi fram að þegar ég tala um „kirkjuna“ er ég að tala um hana sem stofnun en ekki um einstaklingana innan hennar starfa.
Kirkjan hefur leikið stórt hlutverk í sögu þessarar þjóðar og gerir enn þó áhrif hennar hafi farið þverrandi á síðustu árum. Það eru skiljanlega miklar kröfur gerðar til kirkjunnar og til þess ætlast að hún sé jafnt leiðandi afl meðal þjóðarinnar og tilbúin að aðlaga sig þjóðinni. Það er því ekki óeðlilegt að störf kirkjunnar séu í gagnrýnni skoðun hjá þjóðinni. Kirkjan hefur oftar en ekki tekið þeirri gagnrýni ágætlega en stundum ekki og oft verið svifasein í viðbrögðum sínum og stundum látið eins og annað skuli um hana gilda. Ég nefndi dæmi um slík hér að neðan í tengslum við kynferðisafbrotamál og efnahagshrunið. Ég hefði getað fjallað um afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðra sem ég hef ekki alltaf verið sáttur við, ekkert frekar en margir kirkjunnar menn sjálfir hafa verið. Það voru t.d. nokkuð skýr skil í umsögnum um ein hjúskaparlög sem bárust Alþingi annarsvegar frá prestum og hinsvegar frá forystumanni kirkjunnar sem túlkaði afstöðu hennar til málsins.
Það má vera að ég hafi verið ónákvæmur í umfjöllun minni um fjármál kirkjunnar í síðasta pistli enda tók ég það fram að umrædd tala væri samkvæmt því sem ég best myndi. Það er þá ráð að bæta þar úr og vera ögn nákvæmari.
Í fjárlögum ársins 2010 er undir eru hinir ýmsu liðir tengdir kirkjunni sem flokkast í grófum dráttum sem hér segir (greitt úr ríkissjóði í milljónum):
Þjóðkirkjan (Biskupsstofa – laun presta - stofnkostnaður) kr. 1.367,4
Kirkjumálasjóður kr. 257,4
Kristnisjóður kr. 82,2
Kirkjugarðar (rekstur) 917,2
Sóknargjöld kr. 1.800,0
Jöfnunarsjóður sókna kr. 333,0
Samtals eru þetta 4.757 milljónir króna sem ríkið greiðir til þjóðkirkjunnar umfram tekjur. Kannski ekki alveg sanngjarnt að telja þetta allt sem framlag ríkisins til Þjóðkirkjunnar en þetta er þó allt fært undir sama lykil í fjárlögunum. Auk þess má benda á að ríkið greiðir sóknargjöld til annarra trúfélaga upp á kr. 240 milljónir. Hluti þess sem ríkið greiðir til kirkjunnar er samkvæmt samkomulagi þar um vegna afhendingu jarð kirkjunnar til ríkisins á sínum tíma á móti fjárframlögum. Í því samkomulagi eru framlög ríkisins til Biskupsstofu (annað en stofnkostnaður) og Kristnisjóður. Önnur útgjöld eru hinsvegar Alþingis að ákveða hverju sinni. Sem dæmi um slíkt má nefna sóknargjöld sem eru í rauninni ekki innheimt sem slík heldur fær kirkjan lögboðið framlag (kr. 9.204 á ári) greitt frá ríkinu á hvern einstaklingi sem skráður er í þjóðkirkjuna og er eldri en 16 ára. Jöfnunarsjóður sókna og Kirkjumálasjóður fá síðan ákveðið hlutfall af sóknargjaldinu í sinn hlut frá ríkinu.
Ég hef reynt að fylgjast með því sem kirkjan hefur verið að gera á ýmsum sviðum og tekið þátt í ýmsu því sem þar hefur farið fram eins og áður segir. Ég á einnig ágæta kunningja í prestastétt, verið í góðum samskiptum við þá marga og stend reyndar talsvert nálægt þeim sumum - sei nó mor! Auðvitað veit ég að prestar sinna störfum sínum af heilindum og trúmennsku þó þar séu því miður undantekningar á eins og dæmin sanna. En ég oft verið ósáttur við kirkjuna og gagnrýnin á hana sem stofnun m.a. vegna þeirra mála sem ég hef áður nefnt en set þá gagnrýni fram hvorki af hroka né fordómum gagnvart kirkjunni eða trúnni eins og sumir kirkjunnar menn vilja meina.
Svo er ég líka oft kátur með kirkjuna t.d. þetta hér.
Comments
Þorsteinn Óskarsson
24. maí 2013 - 16:17
Permalink
Gaman að finna þig aftur í bloggheimum. Gangi þér vel.