Þessi litla frétt er svo sem ekki ýkja merkileg.
Og þó!
Það hefur áður gerst og mun gerast aftur að tafir verði á afgreiðslu fjárlaga. Ástæðan er svo til alltaf sú sama – ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru ósammála um einstök mál fjárlagafrumvarpsins. Á meðan bíður fjárlaganefnd eftir fyrirmælum frá fjármálaráðherra og getur ekki annað. Fjárlög eru hópverkefni ríkjandi stjórnarflokka og þingmanna sem þá styðja. Fjárlaganefnd spilar ekki sóló með það frumvarp.
Þetta sýnir einnig betur en margt annað að þingnefndir, í þessu tilfelli fjárlaganefnd, ræður litlu sem engu um endanlega niðurstöðu fjárlaga eins og ég hef bent á áður. Það eru ráðherrar og ríkisstjórn sem ráða. Svo einfalt er nú það. Fjárlagafrumvörp taka sjaldan miklum breytingum í meðförum þingsins, kannski 1-1,5% frá því að frumvarp er lagt fram og þar til það verður að lögum. Það er nú allt og sumt.
Það væri hins vegar fróðlegt að vita um hvað ráðherrar hægriflokkanna eru ósammála og um hvað þeir eru að deila.
Kannski einhver góður fréttamaður tékki á því?