Vond ræða fjármálaráðherra

Ræða Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á ársfundi Seðlabankans í gær, olli vonbrigðum. Tvennt var það þó umfram annað sem rætt hefur verið um í því sambandi.
Í fyrsta lagi er ráðherrann nú hættur að tala um afnám gjaldeyrishafta en leggur þeim mun meiri áherslu á „losun“ þeirra. Eða m.ö.o. þá gerir hann nú ráð fyrir því að við munum búa við gjaldeyrishöft í einhverri mynd um ókomna framtíð þótt losað verði um þau að einhverju leyti. Til marks um það segir Bjarni að vonir hans standi til að á fyrri hluta þessa árs verði teknar ákvarðanir „sem marki leiðina fram á við. Árið 2015 verði ár aðgerða og lausna í þessu máli.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjármálaráðherra lýsir yfir að vænta megi stórra aðgerða á næstu mánuðum eins og ég hef áður bent á.
Í öðru lagi hlýtur það að hafa valdið þeim sem sátu ársfund Seðlabankans vonbrigðum að heyra fjármálaráðherra lýsa framtíðarsýn sinni í peningamálum landsins eftir losun hafta. Orðrétt sagði ráðherrann um það: „Ef gætt er að umgjörð og framkvæmd efnahagsstefnunnar, er sjálfstæður fljótandi gjaldmiðill ákjósanlegasta lausnin fyrir íslenskt hagkerfi eftir losun fjármagnshafta.“ Með öðrum orðum: Fjármálaráðherra sér peningamál þjóðarinnar fyrir sér í sama farvegi eftir losun hafta og þau voru í fyrir Hrun og höft.
Ég veit ekki hvort fjármálaráðherra trúir því sjálfur að fljótandi íslensk króna sé ákjósanlegasta lausnin fyrir íslenskt hagkerfi. Mér sýndist sem margir fundarmenn væru honum ósammála. Skiljanlega.
Þessu til viðbótar voru skilaboð hans til launafólks ekki líkleg til að liðka fyrir kjarasamningum eða greiða úr þeim flækjum sem þar eru upp komnar.
Ræða fjármálaráðherra var ruglingsleg um gjaldeyrishöftin og framtíðarsýn ráðherrans eins og hún birtist í ræðunni er víðs fjarri því að vekja vonir um betri tíma fyrir heimili og fyrirtæki.
Heilt yfir var þetta vond ræða hjá fjármálaráðherra.