Um hvaða stöðugleika er maðurinn að tala?

Flestir fagna því að ríkið hafi loksins láta verða af því að semja við lækna. En svo eru þeir til sem finnst þetta heldur súrt. Einn þeirra er Karl Garðarsson, þingmaður framsóknarflokksins, sem vill meina að samningurinn „marki upphafið að endalokum stöðugleika í landinu.“
Hvorki meira né minna!
En um hvaða stöðugleika er Karl að tala? Er það stöðugleikinn í stöðugt lækkandi sköttum á efnamesta fólkið í landinu? Er það stöðugleikinn í stöðugt lækkandi veiðigjöldum? Er það stöðugleikinn sem fjölskyldurnar í landinu fengu í hausinn um áramótin með hækkun á matarskatti? Er það stöðugleikinn í efnahagslífinu sem mælist við frostmark? Er það stöðugleikinn í afnámi gjaldeyrishaftanna? Er það stöðugleikinn í fækkun nemenda í framhaldsskólum sem þingmaðurinn er að tala um? Er það stöðugleikinn í fjölgun þeirra sem þurfa á aðstoð hjálparsamtaka að halda til að framfleyta sér? Eini jákvæði stöðugleikinn er í jöfnu fylgishruni framsóknarflokksins og stöðugu jafnlyndi formanns framsóknarflokksins.
Kannski eru ummæli Karls Garðarssonar um samkomulag ríkisins við lækna hans lóð á þá fallandi vogarskál?