Í aðdraganda síðustu kosningar og kjörtímabilið allt þar á undan fullyrti formaður sjálfstæðisflokksins að það væri tiltölulega létt verk að afnema gjaldeyrishöftin. Það ætti ekki að taka marga mánuði. Í kjölfar kosninganna hefur hann ásamt formanni framsóknarflokksins síðan sent frá sér margar misvísandi yfirlýsingar um afnám haftanna eins og ég hef áður skrifað um. Í dag bætti hann svo enn einni yfirlýsingunni í safnið. Nú segir hann að líklega sé best að afnema höftin í skrefum og í framhaldinu sér hann fyrir sér „að krónan verði fljótandi í framtíðinni, en þó með varúðarráðstöfunum.“
Þetta er ansi merkileg yfirlýsing frá fjármálaráðherra og líklega sú athyglisverðasta í annars ágætu yfirlýsingasafni hans um sama mál.
Í fyrsta lagi er hann að viðurkenna að fyrri yfirlýsingar hans hafi verið óraunhæfar eins og reyndar allir vissu. Í öðru lagi er hann í raun og veru að lýsa því yfir að íslenska krónan sé ónýtur gjaldmiðill sem alltaf muni þurfa að lúta sérstökum varúðarráðstöfunum, þ.e. höftum í einhverri mynd.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem formaður sjálfstæðisflokksins hefur lýst skoðun sinna á krónunni sem gjaldmiðli.
En ætli forsætisráðherra sé sammála fjármálaráðherra um þetta?