Ég hef ekki orðið var við að fréttastofur helstu fjölmiðla landsins hafi kveikt á stóru fréttinni í því að ríkisstjórnin hefur ráðið erlenda aðila til að annast samninga við kröfuhafa. Það gerði hins vegar bloggarinn Egill Helgason eins og sjá má í pistli hans frá því í gær.
Það á sem sagt að reyna að semja.
Það tók Bjarna Benediktsson rúmt ár að átta sig á því að það þarf að semja. Staða Íslands er nefnilega langt frá því að vera góð í þessu sambandi. Glórulaus framganga formanna stjórnarflokkanna, fyrst með yfirgengilegum kosningaloforðum og síðan með þversagnarkenndum og misvísandi málflutningi um afnám haftanna, hefur sett okkur í verri stöðu en við vorum í áður. Kröfuhafar í þrotabú bankanna eru ekki undir mikilli pressu. Þeir vita sem er að við hinn enda borðsins sitja menn sem hafa lofað rækilega upp í ermina á sér og eru þegar búnir að fá yfirdrátt út á meintan ágóða. Þeir vita sem er að það erum við, Íslendingar, sem líðum mest fyrir höftin og borgum fyrir þau með verri lífskjörum en annars væru.
Eftir rúmt ár liggur það þá fyrir að staða Íslands gagnvart samningum við kröfuhafa í þrotabú bankanna er allt önnur og verri en þeir Bjarni og Sigmundur töluðu svo fjálglega um.
Bjarni er búinn að átta sig.
Sigmundur væntanlega ekki.