Uppgjörið í sjálfstæðisflokknum hefur farið fram

Margir velta því nú fyrir sér á hvaða pólitísku leið Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, sé. Margt af því sem hann hefur sagt og gert að undanförnu virkar tvímælis svo ekki sé meira sagt og sumt er allt að því galið og nánast algjörlega óskiljanlegt. Dæmi um þetta eru fjölmargar yfirlýsingar hans um afnám gjaldeyrishaftanna, að því er virðist einbeittur vilji hans til að flokksvæða Seðlabankann aftur og nú síðast að fela pólitískum vinum sínum að skrifa söguna um Hrunið að nýju.
Eftir að hafa stýrt flokknum í gegnum næstverstu kosningar hans hefur Bjarni þurft að takast á við afturhaldsöflin í sjálfstæðisflokknum. Á sama tíma hafa hófsamir sjálfstæðismenn krafist þess af formanni sínum að hann færi flokkinn nær nútímanum jafnt í stjórnarháttum sem stefnumálum. Bjarna hefur tekist illa að sætta sjónarmið í flokknum og gera sig gildandi sem formann hans til framtíðar.
Nú er staðan þannig að fjarað hefur mjög undan þeim sem vilja stofna nýjan flokk út úr sjálfstæðisflokknum og verður að teljast afar ólíklegt að það gerist. Eftir standa þá gömlu stríðsmennirnir, gamla afturhaldið semhverfist um menn eins og Davíð Oddsson og Björn Bjarnason.
Bjarni virðist því hafa orðið undir í baráttunni við þá gömlu sem ráða nú því sem þeir vilja og skeyta hvorki um skömm né heiður, heldur láta pólitískan tilgang helga meðalið. Það kann að skýra furðulegt háttarlag Bjarna að undanförnu.
Átökunum í sjálfstæðisflokknum virðast því hafa lokið með fullnaðarsigri gömlu illvígu stjórnmálanna sem flokkurinn hefur lengst af verið þekktastur fyrir. Á meðan Bjarni gegnir þeim á hann möguleika á áframhaldandi pólitísku lífi.
Allt þar til hinir gömlu hafa fundið eftirmann hans.