Sýndarveröld Bjarna

Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, segir  í nýju viðtali við Aftenposten að gjaldeyrishöftin verði hugsanlega afnumin á þessu ári. Hann hefur áður gefið út nokkrar slíkar yfirlýsingar sem engar hafa staðist.
Bjarni nefnir í viðtalinu sérstaklega þrjú atriði tengd Hruninu sem Íslendingar geti lært af.
1. Að skuldastaða ríkissjóðs í Hruninu hafi gert stjórnvöldum mögulegt að taka lán.
2. Að íslenska krónan hafi bjargað því að ekki fór verr.
3. Að áhrif þess að bankakerfið varð gjaldþrota séu ofmetin.
En stenst þetta skoðun?
1. Nei. Það vildi engin þjóð lána Íslendingum peninga árið 2008, hvorki fyrir né eftir Hrun. Sama hvar menn reyndu. Ísland var lagt inn á gjörgæslu AGS og eina fyrirgreiðslan sem landið fékk fyrsta árið eftir Hrun var í formi neyðar- og viðbúnaðarlána (frá bls. 23).
2. Nei. Íslenska krónan vegur líklega þyngst í þeim byrðum sem Hrunið setti á herðar íslensks almennings. Fall krónunnar jók tekjur af útflutningi til skemmri tíma og þannig tekjur þjóðarbúsins. Gjaldmiðillinn okkar er hins vegar hvergi notaður í heiminum. Við getum hvergi notað hann nema í viðskiptum okkar á milli, þessar ríflega þrjúhundruð þúsund hræður, sem byggja þetta land. Krónan er  sem myllusteinn um hálsinn á okkur öllum.
3. Nei. Hefur verið lagt mat á þetta? Hvar er hægt að sjá það? Er útséð um hvernig uppgjöri á þrotabúum bankanna muni ljúka? Eru gjaldeyrishöftin farin? Hvað kosta þau íslenskan almenning á ári?
Í stuttu máli stenst ekkert af því sem Bjarni Benediktsson segir í þessu viðtali, frekar en mörgum öðrum. Það er engu líkara en að hann búi í efnahagslegri sýndarveröld sem við hin þekkjum ekki, a.m.k. ekki á eigin skinni.