Tveir ráðherrar fóru til útlanda á dögunum. Annar þeirra tilkynnti forsvarsmönnum ESB að hann hygðist þverbrjóta samþykkt Alþingis og hætta allri vinnu við aðildarumsókn Íslands að ESB. Ráðherrann sagði það vera lýðræðislega ákvörðun af sinni hálfu að ganga gegn vilja þingsins og sá evrópski gat lítið við því sagt. Ráðherrann tilkynnti reyndar í lok fundarins að Ísland yrði áfram í Evrópu þannig að fundurinn hefði svo sem getað endað verr.
Hinn ráðherrann fór einnig til útlanda og ræddi þar við sjávarútvegsstjóra ESB um makríl og deilurnar um þann spræka fisk. Það sagði heldur fátt af þeim fundi í byrjun en nú er komið í ljós að eitthvað hefur gengið á. Viðræður Íslendinga við ESB og Norðmenn um makrílinn sem hafa verið í ágætis farvegi fram til þessa virðast hafa fuðrað upp í illindi eftir utanferð ráðherrans. Nú eru Íslendingar komnir á skilorð og refsiaðgerðir vofa yfir okkar ef ekki verður samið hratt og vel á næstu vikum. Ég hvet þá sem til þess hafa tækifæri að inna ráðherrann betur eftir því hvað gerðist á þessum fundi sem vakti upp illindi af þessu tagi þar sem áður ríkti jafnvægi og gagnkvæmur skilningur á erfiðu viðfangsefni.