Ekki óheppni - heldur meðvituð pólitísk ákvörðun

Aldraðir og öryrkjar greiða tvöfalt meira gjald í tannlæknakostnað en þeir eiga að gera samkvæmt reglugerð þar um. Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra finnst það óheppilegt, meira að segja afar óheppilegt . Hann segir að það sé ríkur vilji af hans hálfu að laga þetta. Sama sagði hann síðast þegar hann var spurður um það sama. En samt gerist ekkert.
Það er ekki fyrir óheppni sem aldraðir og öryrkjar greiða tvöfalt meira í tannlæknakostnað. Það er vegna þess að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin hans hafa ákveðið að þannig eigi það að vera. Það er vegna þess að það var tekin ákvörðun um að lækka skatta og gjöld á ríkt fólk og útgerð og draga þannig úr tekjum ríkisins. Það er sem sagt pólitísk ákvörðun en ekki óheppni að þessi hópur þjóðfélagsins greiðir tvöfalt meira í tannlæknakostnað en honum ber að gera.
Það sem Kristján Þór vill meina að sé „afar óheppilegt“ fyrir aldraða og öryrkja er nákvæmlega það sem hann og samstarfsfólk hans ákvað að yrði og eins og þau vilja hafa það.
Um þetta snúast stjórnmálin.

Mynd: Pressphoto.biz