Samstillt átak gegn gagnrýni

Eitt af hlutverkum RNA á sínum tíma var að rannsaka þátt fjölmiðla í aðdraganda Hrunsins. Í skýrslu nefndarinnar segir m.a. um fjölmiðla:
"Ein meginforsenda þess að borgararnir eigi þess kost að rækta þetta frelsi er að þeir hafi greiðan aðgang að góðum upplýsingum um samfélagið og vettvang til þess að skiptast á skoðunum um þær. Í þessu tilliti skipta vandaðir fjölmiðlar sköpum því að þeir eru í senn helsta upplýsingaveitan fyrir almenning og vettvangur borgaranna til að tjá sig um þjóðfélagsmál."
Rannsóknarnefndin taldi að draga mætti eftirfarandi lærdóm af framgangi fjölmiðla á þessum tíma:
- Leita verður leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar.
- Styrkja þarf sjálfstæði ritstjórna og setja eignarhaldi einkaaðila á fjölmiðlum hófleg mörk. Skylt ætti að vera að upplýsa hverjir séu eigendur fjölmiðla á hverjum tíma svo almenningur geti vitað hverjir eigi fjölmiðil og lagt mat á hvort þar sé fylgt fram sjónarmiðum eigenda.
- Efla þarf menntun blaða- og fréttamanna og skapa þeim skilyrði til sérhæfingar í einstökum málaflokkum. Brýnt er að stétt blaða- og fréttamanna efli faglega umræðu og fagvitund meðal félagsmanna.
- Koma þarf á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni.

Samkvæmt þessu er engu líkara en að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að hunsa með öllu þennan hluta skýrslu RNA og ganga í þveröfuga átt. Og það versnar bara og versnar.
Nú eru aðeins þrír áreiðanlegir og óháðir fjölmiðlar eftir í landinu; RÚV, Kjarninn og Stundin. RÚV verður nánast daglega fyrir pólitískum árásum  þingmanna hægriflokkanna. Leynt og ljóst er grafið undan starfseminni, ekki síst því sem snýr að fréttaflutningi og að veita almenningi "góðar upplýsingar um samfélagið" eins og segir í skýrslu RNA. Varan – RÚV – er ekki rétt merkt. Sama á við um Kjarnann og Stundina sem stjórnmálamenn af hægri vængnum líta á sem pólitíska andstæðinga og vilja helst af öllu losna við.
Í stórum dráttum er fjölmiðlun á Íslandi verr á sig komin en hún var fyrir Hrun og áratugina þar á undan. Þannig þurfti það ekki að fara og kemur verst niður á almenningi.
Það er eins og peningamenn hafi læst höndum saman í samstilltu átaki gegn gagnrýni.