Fjármálaráðuneytið birti í dag skýrslu um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta. Það er að ýmsu leyti ansi merkileg skýrsla.
Í fyrsta lagi staðfestir hún að áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem unnið hefur verið eftir frá árinu 2011 til dagsins í dag hefur skilað góðum árangri. Það staðfesti fjármálaráðherra reyndar einnig í sambærilegri skýrslu frá 17. september 2013 þar sem segir m.a. (bls. 4 og tafla á bls. 3):
"Heildarmagn aflandskróna hefur lækkað um tæp 7% af VLF frá því að áætlun um afnám hafta var kynnt. Samhliða þessari lækkun hefur samsetning þessara eigna breyst verulega. Meirihluti lækkunarinnar hefur verið í innstæðum en erlendir aðilar hafa einnig aukið líftíma eigna sinna í skuldabréfum ríkissjóðs."
Hér er um miklar upphæðir að ræða enda eru 7% af VLF um 115-120 mia.kr.
Í þeirri skýrslu kemur einnig fram að ekki komi til greina að afnema höftin að fullu. Um það segir (bls. 5):
"Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mælir með á grundvelli greinarinnar að stjórnvöld íhugi „hraðatakmarkanir“ á útflæði fjármagns, ekki aðeins fyrir lífeyrissjóðina, heldur einnig fyrir hagkerfið í heild, að minnsta kosti fyrstu árin eftir að losun fjármagnshafta hefst. Fjármála- og efnahagsráðuneytið skoðar möguleika á slíkum hraðatakmörkunum samhliða athugun á öðrum varúðarreglum sem beita mætti eftir afnám hafta."
Allt er þetta staðfest enn frekar í skýrslu ráðuneytisins frá því í dag. Hvergi er hægt að lesa það úr henni að gjaldeyrishöftum verði aflétt á næstu mánuðum eins og talað hefur verið um. Þvert á móti er fátt sem bendir til annars en að þau muni verða áfram um lengri tíma.
Undir lok skýrslunnar er svo sagt frá því að allar fyrri nefndir og starfshópar um afnám haftanna hafi ýmist verið lagðir niður eða þeir sviptir fyrra umboði sínu. Alþjóðlegt samstarf íslenskra stjórnvalda, AGS og ESB um þetta mikilvægasta mál okkar Íslendinga er sömuleiðis að engu orðið vegna sinnuleysis stjórnvalda og afstöðu þeirra til landa Evrópu. Þess í stað hefur allt starf í þessu sameiginlega hagsmunamáli okkar allra verið sett í hendurnar á harðkjarna hægrimönnum úr innsta hring stjórnarflokkanna.
Í stuttu máli:
Formenn stjórnarflokkanna virðast ekkert hafa haft fram að færa við afnám haftanna annað en stórkarlalegar yfirlýsingar sem engin innistæða hefur reynst fyrir að mati fjármálaráðuneytisins.
Þeir eru einfaldlega ráðalausir.