Dýrkeypt mistök ráðherra framsóknar

Það verður ljósara með hverjum deginum sem líður hversu alvarleg mistök þeir Sigurður Ingi Jóhannsson atvinnuvegaráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gerðu í fyrstu opinberu ferð þeirra til útlanda um miðjan júni sl. Ferð Sigurðar Inga var farin til að ræða við talsmenn ESB um makríldeiluna. Viðræðurnar voru fram að þeirri heimsókn í föstum skorðum og fátt sem benti til þess að upp úr þeim myndi slitna. Ferð Gunnars Braga var farin í þeim tilgangi að tilkynna um að viðræður Íslands að ESB yrðu stöðvaðar. Viðbrögð ESB við heimsókn Sigurðar Inga var að tilkynna um refsiaðgerðir sem nú virðast ætla að verða að veruleika. Fram að þeim tíma voru aðildarviðræðurnar líklega eitt sterkasta varnarvopn Íslendinga í makríldeilunni, þó ekki væri nema vegna þess að ESB hefði aldrei hótað, hvað þá staðið við, að beita ríki sem ætti í aðildarviðræðum þvingunar- eða refsiaðgerðum. Það eitt og sér hefði samstundis orðið til þess að slíta aðildarviðræðum af beggja hálfu. Í stað þess að beita aðildarumsókninni sem vopni í viðræðunum um makrílinn lögðu þeir framsóknarfélagar hins vegar niður varnirnar í makríldeilunni í þeim tilgangi einum að sinna pólitískum sérhagsmunum og sýna ESB fjandskap framsóknar.
Veiðar á makríl í íslenskri landhelgi hafa að ýmsu leyti gengið verr í sumar en undanfarin ár. Það gæti hæglega gerst að enn erfiðara og kostnaðarsamara verði að veiða makríl hér við land á næsta ári. Þá þurfa viðsemjendur okkar væntanlega ekki að hafa miklar áhyggjur af veiðum Íslendinga. Þeim verður þá sjálfhætt og án samninga um hlutdeild eða veiðar í lögsögum annarra ríkja. Það var því gríðarlega mikilvægt  af hálfu stjórnvalda að sjá til þess að samningaviðræður héldu áfram í þeim farvegi sem þær voru og hagsmunir Íslands yrðu varðir með öllum tiltækum ráðum. Þess í stað stendur Ísland nú veikar að vígi í dag en nokkru sinni áður í deilunni um makrílinn.
Þökk sé þeim Sigurði Inga Jóhannssyni og Gunnari Braga Sveinssyni.