Samkvæmt mínum heimildum kom sérsveit úrvalsþingmanna stjórnarflokkanna, Dauðasveitin svokallaða, saman til síns fyrsta formlega fundar í dag. Ástæða mun hafa þótt til að bíða með fyrstu samkomu sveitarinnar þar til forsetinn hafði tilkynnt formlega að hann myndi staðfesta lækkun veiðigjalda. Hlutverk hennar hefði enda orðið talsvert umfangsminna ef forsetinn hefði ekki gert það. Þótt enn hafi engar fréttir borist af fundinum má ljóst vera að rætt hafi verið um boðaðar uppsagnir hjá opinberum starfsmönnum enda má ná skjótum árangri (tímabundnum þó) með þeim hætti þar sem laun eru með stærstu útgjaldaliðum í ríkisrekstrinum.
Það þykir skjóta nokkuð skökku við að á sama tíma og sérsveitin gengur til sinna verka hafi þótt ástæða til að endurnýja húsgögn á skrifstofu formanns fjárlaganefndar. En auðvitað þarf allur aðbúnaður að vera eins og best verður á kosið. Það hafa allir skilning á því.
Því verður þá ekki um að kenna ef illa fer að væst hafi um hópinn.