Risi í sjávarútvegi

Samherji er eitt öflugasta og best rekna fyrirtæki landsins. Fyrirtækið hefur fjárfest gríðarlega í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum eins og hér kemur fram. Samherji hefur ekki síður staðið í miklum fjárfestingum í sjávarútvegi erlendis sem minna hefur verið til umfjöllunar hér heima. Sem dæmi um það keypti Samherji í samstarfi við aðra norska fyrirtækið Nergård sem hefur yfir miklum aflaheimildum að ráða, auk öflugrar landvinnslu víða í Noregi. Fyrir nokkrum vikum keypti Samherji svo verksmiðju Seachill í Grimsby sem er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Bretlandi með um 750 manns í vinnu. Dótturfélag Samherja í Þýskalandi er síðan með tvo fullkomna togara í smíðum hjá Kleven skipasmíðastöðinni í Noregi sem fyrirtækið fær afhenta á þessu ári. Hér er langt frá því allt upp talið í gríðarlegum fjárfestingum Samherja og dótturfélaga þess í sjávarútvegi hér á landi sem erlendis, auk þess sem fyrirtækið hefur verið að fjárfesta í öðrum tengdum greinum.
Varlega áætlað sýnist mér að fjárfestingar Samherja og dótturfélaga þess og eigenda hér heima og erlendis gætu verið nálægt 30 milljarðar króna á síðustu þremur árum eða svo. Það er hreint ótrúlegt en undirstrikar hversu stórt og öflugt þetta íslenska (norðlenska) fyrirtæki er í sjávarútvegi á alþjóðavísu.
​Heimahöfn Samherja er á Akureyri.