Dagur 3

Þá er þriðji dagur ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins á enda runninn. ​Það bar helst til tíðinda að fyrsta hótun um stjórnarslit er komin fram af hálfu Bjartrar framtíðar.

Björn Blöndal borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, segir að Björt framtíð í ríkisstjórn muni aldrei samþykkja að svipta Reykjavík skipulagsvaldi varðandi Reykjavíkurflugvöll, eins og Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur nefnt sem möguleika, nái hann ekki sínu fram. Þar með er flugvallarmálið orðið að stjórnarslitamáli á þriðja degi ríkisstjórnarinnar.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra hélt svo áfram að útiloka allar mögulegar lausnir í flugvallarmálinu aðrar en hans eigin, þvert ofan í markmið stjórnarsáttmálans.
Ríkisstjórnin hélt sinn fyrsta fund. Svo virðist sem ágreiningur sé í uppsiglingu á milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um hvort stytta eigi kjörtímabilið eða kjósa aftur að hausti eftir fjögur ár, þ.e. ef  stjórnin lifir svo lengi.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra neitar að reynt hafi verið að hvítta yfir dagsetningu á forsíðu skattaskjólsskýrslunnar. Hins vegar hafi verið gerðar smávægilegar breytingar á henni.
Unnur Brá Konráðsdóttir verðandi forseti Alþingis, hvetur þingmenn sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til dáða vegna ráðherraskipanar formannsins.
Sjálfstæðismenn senda formanni flokksins áfram tóninn. Forseti bæjarstjórnar Árborgar segir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi geta illa sætt sig við ráðherraval formannsins og formaður kjörstjórnar flokksins í kjördæminu segir formann flokksins hafa gefið landsbyggðinni fingurinn með vali sínu á ráðherrum.

Á morgun er svo laugardagur og þá róast þetta líklega eitthvað.
En við sjáum til.