Sem stendur er líklegasta niðurstaða næstu kosninga sú að mynduð verði þriggja flokka ríkisstjórn hægriflokkanna, þ.e. sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og framsóknarflokksins, jafnvel tveggja flokka stjórn sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Hvort sem verður yrði sú ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar sem fyrrum flokkssystkini hans í Viðreisn munu vel geta sætt sig við, auk þess sem framsóknarflokkurinn er á mörkum þess að vera stjórntækur.
Sem stendur rúmar sjálfstæðisflokkurinn ekki stóran hluta þess baklands sem fram til þessa hefur fylgt flokknum í gegnum súrt og sætt áratugum saman. Því er sá hópur farinn – í bili - en þó ekki langt. Lífsvon sjálfstæðisflokksins er því falin í að klofningsframboð Viðreisnar nái nægilega góðum árangri til að geta orðið annað tveggja þriðja hjólið undir núverandi ríkisstjórn eða nægilega góður til að mynda tveggja flokka stjórn með sjálfstæðisflokknum. Í því felst von fyrir sjálfstæðisflokkinn að hægt sé að leiða bakland þessara tveggja flokka saman í eina sveit að nýju og þeir sameinist aftur undir merkjum flokksins.
Það hljómar kannski sem öfugmæli en góður árangur Viðreisnar í kosningunum í haust er kannski eini raunhæfi möguleiki sjálfstæðisflokksins þegar til lengri tíma er litið til að ná aftur fyrri styrk.
Það er svo kjósenda að velja á milli þess hvort þeir vilja efla hægriblokkina í íslenskum stjórnmálum eða nýta kosningarnar til annars.