Aðlögun húsnæðismála að íslenskum veruleika

Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum fyrr og nú snúa fyrst og síðast að því að aðlaga þau að séríslenskum aðstæðum. Sá veruleiki er m.a. um háa vexti, óstöðugt efnahagslíf, höft og gjaldmiðil sem við ein þjóða í heiminum notumst við. Allar tillögur stjórnmálamanna og leiðir sem farnar hafa verið í húsnæðismálum miða að því að viðhalda þessum aðstæðum rétt eins og þær séu óumflýjanlegar. Þess vegna er verið að ræða um að breyta byggingarreglugerðum, draga úr gæðum húsnæðis, byggja gámahús, greiða háar upphæðir úr ríkissjóði til lánastofnana, mismuna fólki eftir aldri og efnahag o.s.frv. Allt gert til að viðhalda aðstæðunum en fátt til að breyta þeim til betri vegar.
Í grunninn snúast nýjar tillögur hægristjórnarinnar einmitt um þetta. Að millifæra peninga úr ríkissjóði inn á útlánsreikninga fjármálastofnana til að fólk geti komið sér upp þaki yfir höfuðið. Eftir það taka við aldurstengd úrræði fyrir fólk, allt eftir því hvar það er statt á lífsleiðinni hverju sinni. Það er ekki verið að taka á efnahagsumhverfinu sem við búum við heldur þvert á móti er verið að tryggja viðgang þess. Þannig hefur þetta verið áratugum saman og þannig verður það áfram svo lengi sem stjórnmálamenn taka ekki á rótum vandans.
Ég spái því að það verði eitt af fyrstu verkum næstu ríkisstjórnar, hvernig svo sem hún verður skipuð, að grípa til aðgerða í húsnæðismálum, sérstaklega þó ungs fólks.
Annað væri stílbrot í stjórnmálasögu okkar Íslendinga.