Einfaldlega óboðlegt

Ólíkt fjölmiðlum hér á landi eru Panamaskjölin reglulega til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum. Á hverju ári hverfa að jafnvirði 6.400 milljarðar íslenskra króna frá löndum Afríku í skattaskjól víðs vegar um heiminn. Þetta er talið ein mesta hindrun í vegi eðlilegrar þróunar í álfunni. Fyrir peningana sem komnir eru í skattaskjól frá Kenýa væri hægt að draga úr barnadauða í landinu um helming, byggja yfir 100 góð sjúkrahús, meira en 1.000 heilsugæslustöðvar og ráða og þjálfa meira en 100.000 heilbrigðisstarfsfólk. Tortólurnar eru skaðræði. Þær valda hörmungum fyrir milljónir manna um allan heim og koma í veg fyrir að fólk geti lifað sómasamlegu lífi. Eðli þeirra er það sama hvar em þær eru og tilgangur þeirra sem setja fé sitt í slík skjól er ætíð sá sami.
En við getum ekki aðeins gert kröfur á aðra um að taka á sínum málum og koma í veg fyrir þennan ósóma. Okkur ber skylda til að taka til í eigin ranni og taka höndum saman við aðrar þjóðir við að uppræta skattaskjólin.
Þetta er ágætt að hafa í huga nú þegar fyrrverandi forsætisráðherra Íslands lýsir því yfir að hann hyggist halda ótrauður áfram í stjórnmálum þrátt fyrir það sem á undan er gengið.
Það er einfaldlega óboðlegt þjóð með sæmilega sómakennd.