Fjármálaráðherra og skattaskjólið Ísland

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er harðasti stuðningsmaður  evrópskra stjórnmálamanna um aflandsfélög. Hann heldur því fram að svo framarlega sem skattaskjólsfólkið greiði einhverja skatta sé ekkert við það að athuga. Hann segir ómerkilegt að allir sem fara með fé í gegnum skattaskjól séu settir undir sama hatt. Hann vill meina að hann sé ekki í hópi skattaskjólsliðsins.
Fjármálaráðherra segir Ísland vera eins og hvert annað skattaskjól, rétt eins og Tortóla og Seychelleseyjar. Hann segir skattaafslætti til kvikmyndagerðar á Íslandi vera til vitnis um það. Ólíkt Wintris félagi Sigmundar Davíðs og Falson & co félagi Bjarna eru afslættir til kvikmyndagerðar ákveðnir af Alþingi,  gerð er grein fyrir þeim í fjárlögum og  samningar, undirritaðir af ráðherra, liggja fyrir um þau mál. Sama á við um öll önnur mál af sama toga. Allt þarf þetta síðan að standast kröfur sem   gerðar eru um gagnsæi og jafnræði slíkra ívilnana, jafnt hér á landi sem og samkvæmt skuldbindingum sem við höfum undirgengist gagnvart öðrum þjóðum.  Það sama á ekki við um aflandsfélög formanna stjórnarflokkanna. Þvert á móti er yfir þeim fullkomin leynd enda er það eðli slíkra félaga. Þannig er Wintris og þannig var Falson & co og þannig höguðu eigendur þeirra sér einnig. Þeir sögðu ekki frá og héldu öllu leyndu þar til upp um þá komst.
Eru formenn stjórnarflokkanna kannski tilbúnir til að aflétta leyndinni og birta öll gögn?
Ef ekki – þá hvers vegna ekki og eiga þeir að komast upp með það?

Mynd: Presspoto.biz