Icesave: Við borgum og semjum og borgum ...

Samningarnir sem gerðir voru um Icesave-ósómann í kjölfar Hrunsins miðuðu að því að íslenska ríkið ábyrgðist að ruglið yrði greitt með eignum gamla Landsbankans. Dómur EFTA fólst í því að íslensk stjórnvöld hafi ekki brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar eða mismunað innstæðueigendum. Dómurinn hafði hins vegar engin áhrif á greiðslur úr þrotabúi Landsbankans sem halda áfram, óháð niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Í dag er staðan þannig að Icesave-skuldin er að mestu greidd með eignum gamla Landsbankans eins og til stóð að gera í upphafi.
Nú hefur það gerst að Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur samið um að greiða 20 milljarða króna vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Samtals lækkaði gjaldeyrisforði Seðlabankans um tæpa 30 milljarða af þessum sökum.
Við þetta vakna nokkrar spurningar, t.d. þessar:
1. Í hvers umboði semur Tryggingasjóðurinn um þetta mál?
2. Hver er lagaleg skylda Íslands til að semja við Breta og Hollendinga?
3. Hverjir komu að samningagerðinni?
4. Er samningurinn skilyrðislaus af hálfu Íslands?
5. Er samningurinn opinber?
6. Mun Alþingi taka samninginn og málið allt til umfjöllunar?

Ég ætla að vona að þingið láti þetta ekki yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Það sama á við um okkur hin.