Píratar hafa kynnt stefnu sína í sjávarútvegsmálum. Í stuttu máli er hún þessi:
1. Útgerðarmenn eiga að ráða því sjálfir hvað þeir borga fyrir aflaheimildir.
2. Bundið skal í stjórnarskrá að greiða eigi „fullt gjald“ fyrir aflaheimildir til hóflegs tíma.
3. Allur afli sem veiddur er á Íslandsmiðum skal boðinn upp á markaði.
4. Handfæraveiðar skulu vera frjálsar og án takmarkana.
Þetta vekur upp nokkrar spurningar.
Í fyrsta lagi má spyrja hvers vegna útgerðarmenn eigi að ráða því einir hvað þeir borga fyrir aflaheimildir. Hvað réttlætir það? Á eigandi auðlindarinnar ekkert að hafa um það að segja? Á það sama við um aðrar auðlindir að mati Pírata, t.d. raforku, jarðvarma? Eiga orkufyrirtækin að ákveða hvað þau borga?
Í öðru lagi má spyrja hvað sé „fullt gjald“ fyrir aflaheimildir. Er það hæsta verð? Hver ákveður það verð? Útgerðin? Ef svo er þá eru Píratar að leggja til að útilokað verði að nýta aflaheimildir til byggðatengdra nota. Ef svo er þá falla hugmyndir Pírata eins og flís við rass að áliti stærri útgerða sem alla tíð hafa talað gegn því að aflaheimildir verði nýttar með slíkum hætti.
Allur afli á markað í kerfi þar sem greiða á „fullt gjald“ fyrir heimildir mun á afar skömmum tíma gera algjörlega út af við smærri sjávarþorp um allt land sem hvorki munu geta staðið á bak við „fullt gjald“ né ráðið því hvað þau borga fyrir heimildir.
Rökin á bak við „frjálsar“ veiðar á handfæri er „að hafa átyllu fyrir nýja aðila til að komast inn í útgerð ...“ án þess að þurfa að borga eigandanum afgjald? Það eru vond rök að gefa veiðar frjálsar og fríar í takmarkaða auðlind.
Í stuttu máli sýnist mér Píratar hafa lagt fram stefnu í sjávarútvegsmálum þar sem „markaðinum“ er látin eftir stjórn fiskveiða.
Það eitt og sér er vond stefna.