Ef svarið er nei ...

Samtök iðnaðarins segja að það vanti sárlega erlenda fjárfestingu á Íslandi því tækifærin til fjárfestinga hér á landi séu fjölmörg. Það kann að vera rétt, þó ég efist reyndar um það. Erlend fjárfesting á Íslandi hefur alla tíð nánast eingöngu verið bundin við stóriðju og orkuframleiðslu. Erlend fjárfesting í öðrum atvinnugreinum hefur verið lítil sem engin. Kannski á það eftir að breytast en það verður þó ekki í nánustu framtíð.
En myndu forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins, sem að stórum hluta eru fylgismenn hægristjórnarinnar, ráðleggja sínum umbjóðendum að fjárfesta í landi eins og Íslandi? Landi sem býr við gjaldeyrishöft, notar gjaldmiðil sem hvergi í heiminum er viðurkenndur í viðskiptum, þar sem efnhagsleg óstjórn hefur verið viðvarandi vandamál, þar sem stjórnvöld hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að einangra landið enn frekar en það er og tala um erlenda fjárfesta sem hrægamma og þrjóta sem annað tveggja ætti að skjóta með haglabyssu eða rota með kylfum?
Ef svarið er já, þá eru áhyggjur forsvarsmanna Samtaka iðnaðarins skiljanlegar.
Ef svarið er nei, þá er kannski spurning um hvort þeir ættu ekki að fara betur með atkvæðin sín í næstu kosningum.