Nýr tónn í málsvörn Hönnu Birnu

Fyrst örlítið um Lekamálið.
Hanna Birna hélt því statt og stöðugt fram að Lekamálið væri í raun pólitísk aðför að sér sem byggðist fyrst og síðast á ósannindum og illsku þeirra sem um það fjölluðu. Hún ítrekaði það margsinnis að ekkert óeðlilegt hefði átt sér stað af hennar hálfu og gekk meira að segja svo langt að krefjast brottreksturs blaðamanna sem skrifuðu mest um málið. Hún sagðist aldrei og hvergi hafa farið yfir strikið í málinu og aðkomu sinni að því. Hanna Birna taldi engar forsendur fyrir umboðsmann Alþingis að halda áfram með skoðun sinni á málinu og undir það tók formaður sjálfstæðisflokksins sem gagnrýndi umboðsmann harðlega. Forsætisráðherra var sömu skoðunar og sagði Hönnu Birnu fyrst og síðast vera fórnarlamb í málinu enda hafi hún aldrei komið neitt að því. Yfirlögmaður sjálfstæðisflokksins lýsti yfir eindregnum stuðningi við Hönnu Birnu og fullyrti að umboðsmaður Alþingis stæði fyrir sérstakri aðför að ráðherranum. Þingmenn flokksins stigu fram í sama tilgangi og reyndar lýsti þingflokkur sjálfstæðisflokksins allur yfir fullum stuðningi við ráðherrann. Það gerði líka fyrrverandi dómsmálaráðherra sjálfstæðisflokksins sem réðst af mikilli heift gegn þeim sem um málið fjölluðu. Hugmyndafræðilegur ráðgjafi sjálfstæðisflokksins líkti Lekamálinu við Geirfinnsmálið og það væri allt mótað af æsifréttamennsku og fjöldasefasýki. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum lá heldur ekki á liði sínu frekar en endranær þegar málstaðurinn er vondur..
Fullyrða má að aldrei áður hafi jafn margir gefið jafn margar og sverar yfirlýsingar um eitt mál í síðari tíma stjórnmálaumræðu á Íslandi.
Fyrir þeim reyndist hins vegar engin innistæða.
Nú hefur Hanna Birna sent samflokksmönnum sínum bréf vegna Lekamálsins. En þá ber svo við að hvergi er minnst á ofsóknir. Ekki orð um pólitíska aðför. Hvergi stafkrókur um ósannindi eða illgirni í hennar garð. Hvergi hnýtt í blaðamenn og hvergi ýjað að aðför umboðsmanns Alþingis. Hvað varð um öll stóru orðin og hnausþykku yfirlýsingarnar um sakleysið sem fram til þessa hefurverið hrygglengjan í vörn ráðherrans fyrrverandi og hennar liðs?
Ætli varaformaður sjálfstæðisflokksins viti nú þegar hvert álit umboðsmanns Alþingis verður og sé með bréfinu að undirbúa endanlegt brotthvarf sitt úr stjórnmálum enda verði það ekki umflúið?
Það skyldi þó aldrei vera?
Mynd/Pressphotos.biz