Það voru þau Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra og síðar formaður framsóknarflokksins og Geir H Haarde, þáverandi fjármálaráðherra og síðar formaður sjálfstæðisflokksins, sem afhentu pólitískum vinum sínum bankana á sínum tíma. Nöfnin þeirra eru á afsalinu. Þá var hrundið af stað röð atburða sem enduðu með skelfingu haustið 2008. Ein afleiðing voru Icesave reikningar Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þar náðu nýju eigendur bankans með gylliboðum að narra fólk og fyrirtæki í viðskipti til sín sem þeir gátu svo ekki staðið við. Íslensk stjórnvöld létu það átölulaust fram á síðasta dag og aðhöfðust ekkert fyrr en það var orðið of seint. Allt of seint.
Núverandi stjórnarflokkar nýttu sér upplausnarástandið í samfélaginu í kjölfar Hrunsins til að fægja ásjónu sína gagnvart Icesave reikningunum. Það gerði forsetinn sömuleiðis. Saman tókst þeim með lýðskrumi, ópum og köllum að telja almenningi trú um að hægt væri að ýta vandamálinu út af borðinu. Nú er komið í ljós það sem flestir reyndar vissu að það var og er ekki hægt. Þrotabú gamla Landsbankans er nú langt komið með að greiða Icesave ósómann, eins og alltaf stóð til að gera. En nú heyrast engin óp. Öskurkórinn er þagnaður. Egill Ólafsson ræðir ekki lengur um barnasölu. Það er engin blysför fyrirhuguð til Bessastaða. Almenningur hefur nú ekkert um málið að segja og Alþingi fær ekki að koma að því. Öll samskipti eru lokuð af í reykfylltum ráðherraherbergjum. Forsetinn þegir, sem betur fer.
Það er sem sagt búið að opinbera lýðskrumið og loddaraskapinn sem formenn hægriflokkanna höfðu uppi vegna málsins.
Það reyndist þjóðinni dýrt spaug.