Niðurstaða úr útreikningum sérfræðinga ríkisstjórnarinnar á því hvernig á að deila út 80 milljörðunum í stóru millifærslunni á að liggja fyrir á mánudaginn. Það hefur áður komið fram að bankar og fjármálastofnanir eru með fyrstu tíu veðréttina á undan lækkun höfuðstóls skulda hjá skuldurum.
Í 11. grein laga um millifærsluna er nánar tilgreint hver röð kröfuhafa er. Það er gott fyrir þá sem bíða að kynna sér þessa lagagrein vel. Hún er skýringin á væntanlegum vonbrigðum þeirra sem héldu að þeir væru að fá stóra vinninginn.
Úr 11. grein laganna um millifærsluna:
„Fyrst skal ráðstafað inn á elsta ógreidda gjalddaga lánsins í eftirfarandi röð:
Fyrst kemur vanskilakostnaður og dráttarvextir, næst ógreiddir vextir, auk verðbóta á ógreidda vexti, og loks ógreiddur höfuðstóll, auk verðbóta á ógreiddan höfuðstól. Með sama hætti skal ráðstafa inn á næstelsta ógreidda gjalddaga og svo koll af kolli. Þá skal færa á leiðréttingarhluta lánsins skuld á jöfnunarreikningi ef umsækjandi hefur notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009. Þar á eftir skal ráðstafa inn á leiðréttingarhluta lánsins svo miklum hluta af áföllnum vöxtum og verðbótum áfallinna vaxta og höfuðstól og verðbótum lánsins sem þarf þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Leiðréttingarfjárhæð þannig samansett myndar nýjan höfuðstól fyrir leiðréttingarhluta láns. Áfallna ógreidda vexti af leiðréttingarhluta lánsins má leggja við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Því næst skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað með sömu aðferð á fasteignaveðlán á næsta veðrétti fasteignar umsækjanda og svo koll af kolli.
Þannig fá þeir allt sitt, bankarnir, koll af kolli ...