Þarna skilur á milli vinstri og hægri

Á árunum fyrir Hrun var jafnt og þétt dregið úr framlögum til grunnstoða velferðarsamfélagsins. Sérstaklega átti þetta við um lífeyris- og sjúkratryggingar, framhalds- og háskóla. Ríkisstjórn vinstrimanna lagði mikla áherslu á að snúa þessari þróun við í kjölfar Hrunsins. Framlög til grunnstoða samfélagsins voru aukin jafnt og þétt út kjörtímabil stjórnarinnar sem hlutfall af því sem við höfðum til skiptanna. Við greiddum á kjörtímabilinu hærra hlutfall af því sem við framleiddum á ári hverju til þessara málaflokka en gert var á árunum fyrir Hrun þegar nóg átti að vera til handa öllum. Og þetta var hægt að gera þrátt fyrir að vaxtagreiðslur ríkissjóðs hefðu margfaldast á sama tíma vegna mikilla skulda, auk annarra erfiðleika sem Hrunið færði okkur heim.
Nú er verið að snúa þessu aftur til fyrri vegar eins og sjá má á myndinni hér að ofan og í fjárlagafrumvarpi hægristjórnarinnar. Bláu súlurnar standa fyrir vaxtagreiðslur sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og þær rauðu fyrir framlög til tryggingakerfisins og framhalds- og háskóla.
Þetta er m.a. það sem skilur vinstrimenn frá hægrimönnum.