Álitshnekkir fyrir Alþingi

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur skilað áliti sínu á skýrslu rannsóknarnefndar þingsins á Íbúðalánasjóði. Í stuttu máli tætir meirihluti nefndarinnar skýrsluna í sig sem og rannsóknarnefndarmennina sjálfa. Meirihlutinn gerir svo til engar athugasemdir við starfsemi Íbúðalánasjóðs eða starfshætti hans. Þvert á móti ver meirihlutinn starfsemina með kjafti og klóm og gerir vörn fyrrverandi starfsmanna sjóðsins og ábyrgðarmenn hans að áliti sínu. Nefndin telur hvorki sig né Alþingi þurfa eða geta lært nokkuð gott af starfsemi sjóðsins í aðdraganda Hrunsins.
Meirihluti nefndarinnar gefur sterklega í skyn að rannsóknarnefnd Alþingis hafi hvorki starfað af heilindum né fagmennsku að rannsókn sinni á Íbúðalánasjóði.
En gerði meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar það? Hvað tók það meirihlutann langan tíma að komast að niðurstöðu sinni? Í hvað rannsóknarvinnu lagðist nefndin og hvernig fagmennsku ástunduðu nefndarmenn meirihlutans við gerð álitsins? Hvað sögðu þingmenn um skýrslu rannsóknarnefndarinnar þegar hún kom út? Er niðurstaða þeirra kannski brennd af fyrri yfirlýsingum og pólitískum skoðunum meirihlutans?
Niðurstaða meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er álitshnekkir fyrir Alþingi og er til marks um það að þingið, eins og það er skipað í dag, er ófært um að gera upp fortíðina.
Því miður.