Í tilefni dagsins!

Í tilefni dagsins, heimsmetsins, lækkandi vaxtabóta; lækkandi framlaga til framhaldsskóla; niðurfellingu auðlegðarskattsins; lækkun veiðigjalda og tekjuskatts; minni þróunaraðstoðar, ásamt öllu öðru smáu sem stóru, skellti ég í eina skyrtertu í morgun.
Eins og gefur að skilja notar maður skyr í skyrtertu. En ekki hvaða skyr sem er, heldur KEA skyr - ósykrað og óhrært. Allt annað eru eftirlíkingar sem ber að varast.
Nú. Best finnst mér að setja eins og kvart kíló af skyri í hrærivélarskál, brjóta ofan í skálina eitt egg úr unghænu, sáldra 2 matskeiðum af sykri jafnt yfir skálina og strá tveimur teskeiðum af vanillusykri fínlega ofan á allt saman. Þessu er svo hrært vel saman og hrært vel og lengi. 6-8 mínútur er ekki of í lagt ef skyrtertan á að bráðna í munni líkt og óbakaður marens. Á meðan skyrið er að hrærast er botninn lagður að tertunni í fallega glæra skál sem talin er hæfa KEA skyrtertu. Botninn er eiginlega það eina sem menn geta haft nokkuð frjálsar hendur með í skyrtertugerð. Það má mylja í hann hafrakex, kornflögur, LU-kex, kókosflögur og margt fleira og blanda saman því sem maður telur eiga við hverju sinni. Lykilatriðið er að mylja botnlagið í skálina sjálfa með berum höndum þannig að mylsnað smjúgi í hnúana. Á meðan það er gert er ágætt að reyna að rifja upp hvort maður hafi ekki örugglega þvegið sér vel um hendurnar áður en hafist var handa.
Þegar skyrið er orðið létt og loftkennt er dregið niður í hrærivélinni og skálin tæmd í aðra minni skál og geymt þar um stund. Nú setur maður tvo og þrjá fjórðu dl af rjóma í hrærivélarskálina og þeytir hann passlega. Ekki alveg til fulls, heldur örlítið minna en maður myndi gera ef ætti að bjóða upp á hann með nýbökuðum vöfflum. Þegar rjóminn er orðinn að því sem honum er ætlað að verða, er skyrblöndunni hellt saman við rjómann og hrært örlítið í með vélinni. Ekki of mikið, bara nokkra hringi. Að lokum er þetta hrært rólega saman með sleikju þar til skil rjóma og skyrs eru að engu orðin.
Nú eru 2 msk af rjómaskyrsblöndunni hrærðar vel saman við botnlagið og það síðan sléttað fallega í botn skálarinnar. Að lokum er allri blöndunni hellt rólega yfir botninn og dregið úr með sleikjunni þar til efsta lagið er orðið pall slétt. Ofan á þetta má svo setja bláber, súkkulaðispæni (Lindu), kirsuberjahlaup, jarðarberjasósu eða annað sem líklegt má telja að verði til að fullkomna verkið fyrir góma og augu.
Best er síðan að kæla tertuna mátulega í ísskáp, þarf ekkert að vera mjög lengi, bara stutta stund.
Fátt jafnast síðan á við það að drekka rótsterkan Gulan Braga með svona tertu. En það er smekksatriði, að sjálfsögðu.