Til varnar Vigdísi Hauksdóttur

Miðað við það sem lesa má á internetinu telja margir að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar sé veik og á röngum lyfjum. Því er haldið fram að hún sé varla með réttu ráði og gangi ekki heil til skógar. Þetta þykist fólk geta lesið úr hegðun hennar og framgöngu, nú síðast í viðtali á RÚV í morgun.
Það er ekkert nýtt að fólk sé talið veikt eða galið vegna skoðana sinna eins og dæmin sýna. Slíkur málatilbúnaður ber hins vegar oftar en ekki vitni um málefnafátækt og rökþrot.
Það er ekkert að Vigdísi frekar en flestum öðrum. Það á ekki að tala þannig um hana eða nokkurn annan mann. Við erum öll einhvern veginn öðruvísi. Það er enginn eins. Sem betur fer.
Vigdís Hauksdóttir endurspeglar einfaldlega pólitískar skoðanir og stefnu ríkisstjórnar sem hún styður af heilum hug. Hún er sínum trú og stendur þétt við bakið á formönnum beggja stjórnarflokkanna. Ekki síst Bjarna Benediktssyni sem fer með fjármál ríkisins og þarf á öflugum stuðningi að halda við að berja hjartans mál sjálfstæðisflokksins í gegnum þingið.
Vigdís er harðdrægur baráttumaður fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. Allt sem hún hefur sagt til þessa hefur orðið að veruleika. Atlagan að RÚV, lækkun veiðigjalda, lækkun tekjuskatts og lækkun þróunaraðstoðar. Lækkun vaxta- og barnabóta mun sömuleiðis raungerast á næstu dögum. Það er þó ekki bara vegna þess að Vigdís Hauksdóttir vilji það, heldur vegna þess að þetta er stefna ríkisstjórnar sem hún styður og berst fyrir.
Það væri óvarlegt að telja þau öll veik eða galin.

Comments

Viðar Örn Sævarsson's picture

Æi blessaður vertu nú ekki með þetta pólitíska hjal þó það henti þér akkúrat núna.  Þú talar ekki fyrir heilan flokk þó þú aðhyllist kannski að einhverju marki sömu skoðanir og samflokksmenn þinir.  Vigdís er kannski ekki með neinn sjúkdóm en orð hennar eru virkilega farin að leyta svolítið langt út fyrir almenna hugsun og þá skynsemi sem á að aðgreina menn frá dýrum.  Ummæli hennar eru svívirðileg og hún á að skammast sín fyrst og fremst persónulega og síðan má hún jú alveg biðjast afsökunar fyrir hönd þessa flokks sem hún stendur í stafni fyrir , þetta er í fyrsta sinn sem að mér finnast stjórnmál hreint út sagt ógeðsleg og ég vona að þessu linni og að þessi kona verði látin víkja fyrir einverjum sem veit betur.  Vonandi er hún að segja þessa hluti af því að hún er heilaþvegin og veit ekki betur því sem manneskja vil ég helst halda áfram að trúa þvi að vont fólk sé ekki til.

Anna Benkovic's picture

Viðar Örn, þetta svokkallaða "pólitíska hjal" er einmitt það sem ég og margir erum að hjala saman þessa dagana.

Við spurjum hvort annað hvort Vigdís Hauksd. sé heimsk eða gáfuð?

Við spurjum hvort annað hvort Vigdís H. sé góð eða vond manneskja?

Við spurjum hvort annað Hvort það sé alltaf meiningin að hún komist upp með að snúa út úr beinum spurningum?

Við spurjum hvort annað hvort Vigdís H. sé "scapegoat" fyrir núverandi ríkisstjórn Íslandsins okkar allra?

Við spurjum um bein svör SDS og BB um "hvers vegna var ekki seldur út kvóti á makríl?" Af hverju að senda Vigdísi Hauksdóttur til að tilkynna og svara  fyrir lækkun vaxtabóta, barnabóta og þróunarhjálpar?

Við spyrjum hvort nokkuð af þessu sé "pólitískt hjal?