Brjálæðisleg viðbrögð forsætisráðherra

Starfsmenn Seðlabanka Íslands svöruðu spurningum þingmanna í efnahags- og viðskiptanefnd á opnum fundi nefndarinnar í morgun. Svör þeirra kölluðu á viðbrögð formanna stjórnarflokkanna sem brugðust við með afar ólíkum hætti. Fjármálaráðherrann tók undir áhyggjur starfsmanna bankans og sagði ekki standa til að ógna efnahagsmálum landsins með nokkrum hætti. Viðbrögð ráðherrans voru yfirveguð og hófstillt eins og vænta má af þeim sem eru meðvitaðir um stöðu sína og ábyrgð.
Viðbrögð forsætisráðherra voru heldur vanstillt, svo ekki sé meira sagt. Hann vill meina að starfsmenn Seðlabankans séu í pólitískri andstöðu við framsóknarflokkinn og stefnu hans og svör þeirra beri að skoða með það í huga. Hann fullyrðir að einhverjir starfsmenn bankans séu stjórnarandstæðingar sem láti pólitískar skoðanir sínar bera fagmennskuna ofurliði. Forsætisráðherrann nefnir reyndar ekki nöfn þessara starfsmanna sem gerir málið hálfu verra.
Þetta eru í raun brjálæðisleg viðbrögð af hálfu forsætisráðherra landsins. Ráðherrann er oddviti ríkisstjórnarinnar og kemur fram í hennar umboði. Hann er þ.a.l. æðsti yfirmaður efnahagsmála og þar með Seðlabankans. Hann mun því þurfa að skýra þessi ummæli sín betur.
Hvað ætli fjármálaráðherranum finnist um viðbrögð forsætisráðherrans? Er hann sammála því að starfsmenn Seðlabankans séu í pólitískum leiðangri gegn ríkisstjórninni og álit þeirra á efnahagsmálum sé litað pólitískum skoðunum þeirra? Geri hann það er um algjöran trúnaðarbrest að ræða á milli ríkisstjórnar og Seðlabankans sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Ætli einhver muni spyrja Bjarna hvað honum finnist um þetta?