Félagi Össur

Össur Skarphéðinsson er með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst. Hann er sjaldan í vondu skapi, oftast glaður og brosandi og er óspar á skemmtilegar sögur eins og lesa má í nýju gamansögunum hans. Hann er stjórnmálamaður af ástríðu sem gott er að vera samferða.
Fáir hafa teflt jafnmargar pólitískar refskákir af jafn miklum myndarskap og Össur. Heldur hefur þó hægt á snerpunni og útsjónarseminni hjá honum eins og títt er um eldri menn. Hann gerist æ fyrirsjáanlegri og úthaldsdaprari eftir því sem árin hlaðast upp. Þetta má m.a. sjá á utanímígingum hans á húsbændurna í Valhöll að undanförnu. Það blasir við Össuri, eins og öllum sem á annað borð eru með pólitískri meðvitund, að tæplega verður sparslað svo haldi í sprungurnar sem þegar hafa myndast í samstarfi hægriflokkanna. Það er því eins víst að rof verði í sambandi þeirra áður en langt um líður. Því falbýður gamli refurinn nú sjálfstæðismönnum Samfylkinguna aftur til frjálsra afnota ef þeir myndu fá aftur lystina. Nú er hnýtt í gömlu félagana, reynt að afmá sporin og iðrast í von um húsaskjól.
Össur teflir af djörfung í þetta sinn eins og svo oft áður. En nú hefur hann úr öðrum mannskap að tefla en áður og flestir þeirra eru á vinstri vængnum. Það er því óvíst að hann hafi það lið sem hann þarf á að halda að þessu sinni.
Hvað sem því líður þá vona ég að félagi minn Össur Skarphéðinsson komist á fótunum úr þessum leiðangri. Það yrðu dapurleg örlög þessa skemmtilega stjórnmálamanns að daga uppi sem pólitískur hórkarl.
Ég má ekki til þess hugsa.