Trúður með töfrabrögð

Í nýjasta riti Peningamála Seðlabanka Íslands kemur fram að viðskiptakjör Íslands hafa ekki verið verri í áratugi og munu líklega versna. Áður hafði Seðlabankinn (okt. 2013) og bankastjóri lýst nokkrum áhyggjum sínum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Allar vísbendingar eru nú uppi um að við stefnum  aftur í átt til fyrri tíma og framundan séu erfiðari tímar en þurfa að vera.
Æðsti yfirmaður efnahagsmála á Íslandi virðist ómeðvitaður um hvert hann er að fara með þjóðina.  Á meðan viðvörunarbjöllurnar hringja og aðvörunarljósin kvikna allt um kring, talar hann um sókn í landbúnaði, trú á olíu og að hugsanlegt svigrúm kröfuhafa  muni leysa þjóðina úr fjárhagslegum álögum. Vanmáttugar tilraunir fjármálaráðherrans til að hefja vitræna umræðu um efnahagsmál eru samstundist barðar niður af yfirboðara hans úr forsætisráðuneytinu. Hann verður að láta sér nægja að lýsa yfir vanþóknun sinni með táknrænum hætti.
Enn hefur enginn, ekki nokkur einasti aðili, stofnun eða samtök, innlend eða erlend lýst yfir stuðningi við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem byggð er á kosningaloforðum framsóknarflokksins.
Það er mikið áhyggjuefni að fjölmiðlar virðast annað tveggja hafa misst áhugann á að fjalla með gagnrýnum hætti um efnahagsmál eða geta það ekki einhverra hluta vegna. Með undantekningum þó. Þeir láta sig flestir hafa það að busla í yfirborðinu eins og þeir gerðu í aðdraganda Hrunsins. Trúboð forsætisráðherrans virðist heilla frekar en ískaldur raunveruleikinn.
Þeim er líka vorkunn eins og okkur öllum.
Það er erfitt að keppa við trúð með töfrabrögð?