Örsaga úr þinginu: Tilraunin sem mistókst

Veturinn 2011/2012 var erfiður í þinginu. Stjórnarandstaðan hertók hvert málið af öðru með skipulögðu málþófi og tafapólitík sem aldrei fyrr. Þingið náði vikum saman ekki að afgreiða þingmál utan veigalítilla ályktana. Stjórnarandstaðan réð því hvað var afgreitt og hvað ekki. Forseti þingsins hafði fyrir löngu misst tökin á starfsemi þingsins sem í raun var stjórnlaust vegna þess um tíma. Það var undir þessum kringumstæðum sem ég sem þingflokksformaður Vinstri grænna og Magnús Orri Schram þingflokksformaður Samfylkingar boðuðum þingflokksformenn annarra flokka til fundar við okkur. Hvorugur okkar hafði þá rætt þetta við þingflokka okkar eða formenn flokkanna. Fundur var haldinn síðari hluta dags á hóteli í Reykjavík og tilgangur hans var að gera tilraun til þess að bæta samskipti þingmanna og ná tökum á störfum þingsins. Auk okkar tveggja sátu þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Þór Saari fundinn. Töluverðrar tortryggni gætti í upphafi fundarins en þegar á leið náðum við að tala saman eins og fólk. Allir virtust átta sig á stöðunni og nauðsyn þess að vinna sig út úr vandanum og það værum við, þingflokksformennirnir, sem þyrftum að leiða þá vinnu. Ákveðið var að hittast aftur og fara þá betur yfir málin. Næsti fundur var haldinn snemma morguns á veitingastað í Reykjavík þar sem við snæddum saman morgunverð. Þá var strax ljóst að ekki var vilji af hálfu þingflokksformanna sjálfstæðis- og framsóknarflokks til frekara samstarfs í þessa veru. Þess í stað fóru þau að ræða einstök mál, afgreiðslu þeirra og skilyrði þeirra fyrir afgreiðslu einstakra mála. Það var greinilegt að þau höfðu í millitíðinni rætt við forystufólk sitt og fengið frá þeim línuna um að gera ekkert samkomulag við okkur um bætt vinnulag í þinginu. Þau töldu enga ástæðu til frekari fundahalda af okkar hálfu. Það var annað hljóð í þingflokksformanni Hreyfingarinnar sem, ólíkt hinum tveim, áttaði sig á  hve staðan í þinginu var alvarleg og að nauðsynlegt væri að gera eitthvað í málinu.
Þessi tilraun okkar Magnúsar Orra rann því út í sandinn þennan morgun og almenningur hélt áfram að horfa upp á þingið sitt í hverkví þeirra flokka sem nú stjórna landinu.