Eggjanna virði

Á undanförnum árum hefur orðið til sú skemmtilega hefð að almenningur hefur haft nær ótakmarkaða heimild til að grýta þingmenn einn dag á ári, þingsetningardaginn. Yfirleitt er um að ræða matvæli, egg, tómata og grænmæti. Stundum hefur fylgt með eitt og eitt grjót en oftast nær eru um að ræða mjúka og hættulausa hluti að mati oddvita almennings.
Nú er þessi tími liðinn, sem betur fer. Almenningur mun ekki mótmæla hægristjórninni, hvorki með því að grýta mjúkum hlutum í þingmenn né öðrum hætti. Móðir allra loforða hangir yfir almenningi. Stærsta aðgerð í veraldarsögunni er handan við hornið. Útreikningarnir munu liggja fyrir í nóvember en óljóst hvenær greitt verður út. Yfirlýsingar af þessari stærðargráðu hafa ekki heyrst áður á vesturlöndum. Meiningar eru uppi um pólitíska heilsu valdamestu manna landsins.  Fólk er óttaslegið og áhyggjufullt um afleiðingar þess að mótmæla.
Almenningur mun því ekki grýta slíka stjórnmálamenn eða eyða tíma sínum og orku til mótmæla. Ekki eins og gert var við þá stjórnmálamenn sem tókust á við erfiðleika Hrunsins sem núverandi stjórnarflokkar sköpuðu.
Það lið var eggjanna virði.