Fá hugtök hafa verið misnotuð jafn rækilega á undanförnum árum og „heimilin í landinu“. Hvað er átt við með „heimilin í landinu“? Eru það öll heimili sem haldin eru af öllum stærðum og gerðum í öllum sínum fjölbreytileika eða bara sum?
Heimili er samfélag fólks, einstaklinga, hjóna, sambúðarfólks, foreldra og barna þar sem allir deila löngunum sínum og þrám, tilfinningum og ábyrgð. Eða eitthvað í þessa veruna. Heimilisfólk (fjölskylda) er hvert öðru skuldbundið og sýnir hvert öðru trúnað og vinskap.
Til að heimili þrífist vel þarf ytra umhverfi að vera því hliðhollt. Góður aðgangur að velferðar- og heilbrigðiskerfinu, aðgangur að menntun þarf að vera boðlegur, sem og tómstundir og menningarlíf. Laun og vinnutími þurfa að vera þannig að fjölskylda geti átt gæðatíma saman á hverjum einasta degi.