Í gær hlustaði ég og horfði á Harald Noregskonung flytja áramótaávarp sitt. Í því lagði hann m.a. út frá stjórnarskrá sem leikskólabörn höfðu samið og gefið Haraldi. „Store barn skal hjelpe små barn“ og „Alle mennesker må ta vare på jorda vår“ segir í því ágæta skjali. Ávarpið var laust við hroka og stærilæti. Það var innihaldsríkt og flutt af auðmýkt.
Þetta var tónninn í þáverandi stjórnarandstæðingum og núverandi stjórnarliðum um ástandið á Suðurnesjunum eftir að hafa skilið landið allt eftir í kaldakoli. Þetta er svo einn stjórnarliðinn nýbúinn að senda frá sér um þeirra sameiginlega sköpunarverk. Hér má svo lesa um hvernig þau láta verkin tala þegar þau fá færi til þess. Það er ekki eitt - heldur allt.
Það er stundum sagt í kaldhæðni að þjóðin eigi skilið það sem hún fær í kjölfar kosninga. Engin þjóð á þó skilið það sem íslenska þjóðin hefur mátt búa við frá vorinu 2013. Aukin misskipting og ójöfnuður er versta afleiðing af stjórnarstefnu sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Misskipting gæða, tekna og aðgangs að mennta- og velferðarkerfi mun alltaf leiða til ills. Ísland verður engin undantekning á því svo lengi sem ríkisstjórn hægriflokkanna fer sínu fram. Árið 2014 var ár upplausnar.
Ég gekk í sunnudagaskóla kirkjunnar í Ólafsfirði þegar ég var barn eins og flest önnur börn í þorpinu. Það var fínn félagsskapur í annars fábreyttu félagslífi okkar. Síðar fór ég stundum með mín börn í sunnudagaskólann í sömu kirkju. Það gekk svona upp og ofan. Eftir því sem ég best veit er ekkert sérstaklega haldið að barnabörnum mínum að taka þátt í kirkjulegu starfi. Það kemur þó fyrir. Ekkert okkar telst vera kirkjusækið fólk í dag. Það ætti þó kannski frekast við um okkur hjónin ef út í það er farið.
Vladimir Putin, forseti Rússlands var nýlega valinn maður ársins í Rússlandi, fimmtánda árið í röð. Honum hefur væntanlega þótt það verðskuldað. Forseti Íslands veitti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra Íslands nýlega stórkross hinnar íslensku fálkaorðu samkvæmt tilnefningu frá Guðna Ágústssyni fyrrum formanni framsóknarflokksins. Þeim hefur væntanlega öllum þótt það verðskuldað. Heimurinn er stundum minni en maður heldur.
Ég óska öllum vinum, ættingjum, samstarfsfólki og ekki síður dyggum lesendum pistla minna, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Jeg ønsker venner mine, familie og kolleger en riktig god jul og et godt nytt år!
Það voru þau Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra og síðar formaður framsóknarflokksins og Geir H Haarde, þáverandi fjármálaráðherra og síðar formaður sjálfstæðisflokksins, sem afhentu pólitískum vinum sínum bankana á sínum tíma. Nöfnin þeirra eru á afsalinu. Þá var hrundið af stað röð atburða sem enduðu með skelfingu haustið 2008. Ein afleiðing voru Icesave reikningar Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þar náðu nýju eigendur bankans með gylliboðum að narra fólk og fyrirtæki í viðskipti til sín sem þeir gátu svo ekki staðið við. Íslensk stjórnvöld létu það átölulaust fram á síðasta dag og aðhöfðust ekkert fyrr en það var orðið of seint. Allt of seint.
Yfirlýsing Vilhjálms Bjarnasonar um að það sé „öllum til hagsbóta að hinir efnaminni kaupi notuð heimilstæki af hinum efnameiri“ er dýpri og merkingarmeiri en ætla mætti við fyrstu sýn. Í fyrsta lagi felst í henni viðurkenning á því að aðgerðir hægristjórnarinnar hafi það að markmiði að létta undir með hinum efnameiri. Í öðru lagi felst í henni viðurkenning á því að það markmið hafi náðst. Í þriðja lagi felst í orðum Vilhjálms viðurkenning á því að bilið á milli efnameira fólks og hinna sé að aukast enda felst það í raun í markmiðinu sjálfu. Í fjórða lagi vitnar yfirlýsing Vilhjálms um að ríkisstjórnin og fylgismenn hennar hafi ekki enn gefist upp á löngu úreltri brauðmolahagfræði.
Þann 20. október sendi ég fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn um stóru millifærsluna. Svarið sem barst 9. desember var út í hött og svaraði ekki því sem spurt var um. Lögum samkvæmt eiga ráðherrar að svara fyrirspurnum þingmanna án undantekninga. Ég mun ekki sætta mig við „ekki svar“ ráðherra við einfaldri fyrirspurn minni og hef því sent forseta Alþingis erindi og óskað liðsinnis hans við að reyna að kvelja ráðherrann til svara. Gangi það ekki innan skamms mun ég finna aðrir leiðir að sama markmiði. Svarið mun koma, með góðu eða illu.