Gerum Ísland betra

 Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði ágæta grein í Kjarnann (í tveimur hlutum) undir yfirskriftinn Er Ísland best í heimi?“ Því er auðvitað fljótsvarað. Ísland er ekki best í heimi frekar en önnur lönd, enda erfitt að mæla „best“ svo öllum líki.
Hvað um það.
Í þessari ágætu grein veltir Þórður Snær m.a. fyrir sér framtíðarmöguleikum ungs fólks á vinnumarkaðinum á Íslandi og kemst að þeirri niðurstöðu að þeir séu í rauninni ekki mjög miklir. Þórður Snær gerir í því sambandi að umfjöllunarefni sínu að stjórnvöld hafi í langan tíma ekki stutt við atvinnugreinar sem kalla á meiri menntun en finna má í sjávarútvegi, ferðaiðnaðinum og stóriðju. Það er margt til í þessu.

Brestir

Það má vel greina pirring og þreytu hjá þingmönnum sjálfstæðisflokksins í garð framsóknarmanna, ekki síst af hálfu formannsins. Aðallega þó vegna framgöngu formanns framsóknarflokksins á ýmsum sviðum og viðbragða hans við mörgum málum. Skemmst er að minnast þess er hann hvarf óvænt af vettvangi á háannatíma þingsins fyrir jól án nokkurs fyrirvara. Þar á eftir sinnti hann ekki hlutverki sínu sem forystumaður í ríkisstjórn með því að taka ekki þátt í göngu gegn ofbeldi í París sem allir aðrir leiðtogar í Evrópu gerðu. Síðan sakar hann fjölda opinberra starfsmanna og fleiri innlenda sem erlenda aðila um stórfelldan glæp gegn þjóðinni. Viðbrögð hans við gagnrýni sem að honum beindist vegna þessa voru svo hvorki honum né stjórnvöldum til sóma.

Of mikið common sense

Einar K. Guðfinnsson ákvað að gera blaðagrein fyrrum forstjóra BM Vallár að þingmáli í ársbyrjun 2014. Það gerði hann í krafti embættis síns sem forseti Alþingis og upp á sitt eindæmi. Þessi ákvörðun er fordæmalaus. Með henni hleypti forseti Alþingis lífi í ásakanir um að opinberar stofnanir í samstarfi við innlend og erlend einkafyrirtæki hafi gert samsæri gegn íslenskum hagsmunum. Forsætisráðherra tók svo hressilega undir þær ásakanir á dögunum og gerði þær að sínum. Það gerði formaður sjálfstæðisflokksins hins vegar ekki og telur þvert á móti að engin innistæða sé fyrir því að bera slíkar sakir á fólk.

Yfirlýsing um vantraust

Fyrirætlanir íslenskra fyrirtækja á alþjóðamarkaði um að flytja starfsemi sína frá landinu er vantraustyfirlýsing á stjórnvöld. Eigendur og stjórnendur þessara fyrirtækja trúa því ekki að þeir sem stjórna landinu hafi burði til að leysa úr okkar stærsta máli, afnámi gjaldeyrishaftanna. Fyrirtækin hafa hvorki trú á því að það sé að gerast né muni gerast í náinni framtíð. Þess vegna velja þau þann kost að flýja land með starfsemi sína áður en það verður of seint.
Það er ekki gott.

Botnlaus vanhæfni ráðherra

Fjármálaráðherra hefur í annað sinn svarað fyrirspurnum mínum og Katrínar Jakobsdóttur um stóru millifærsluna. Í svarinu segist hann ekki getað svarað spurningum okkar. Sem er hreint út sagt ótrúlegt þegar um er að ræða málið af þessari stærðargráðu, þ.e. 80 milljarða króna greiðslur úr ríkissjóði. Það er óásættanlegt með öllu að ráðherra sem tekið hefur að sér að fara með almannafé skuli ekki geta gert grein fyrir hvernig því fé er varið. Það verður að trúa því að fjármálaráðherrann viti ekki svörin frekar en að hann vilji ekki upplýsa um þau.
Hvað sem því líður þá vitna svör Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um botnlausa vanhæfni hans sem ráðherra fjármála.

Smá mistök ...

Sú ákvörðun Orkustofnunar að leggja til fjölda virkjana þar sem áður hafði verið ákveðið að vernda var nógu galin eins og sér. Nú hefur stofnunin dregið þrjár af þeim tillögum sínum til baka þar sem í ljós hefur komið að kortagrunnurinn sem stuðst var við „innihélt ekki nýjustu upplýsingar um breytingar á mörkum Vatnajökulsþjóðgarð.“
Það er eins gott að einhver sé á vaktinni.

Úrtölumaðurinn Lars

Barni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að ríkisstjórn hægriflokkanna muni ekki leyfa það í annað sinn að nýtt „Icesave dæmi“ verði til. Það er skiljanlegt í ljósi sögunnar að menn langi ekki til að endurtaka þá vitleysu alla.
Í ljósi sömu sögu eru efasemdir um að þessir tveir flokkar muni taka ráðleggingum og viðvörunum og líti ekki á slíkt sem úrtölur þó það komi frá útlöndum.
Eins og síðast.

Dauðrotað samsæri

Stóra samsæriskenning þeirra Víglundar Þorsteinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar snýst um að alþjóðlegt samsæri hafi verið myndað gegn íslenskum hagsmunum við stofnun nýju bankanna eftir Hrun. Að því samsæri stóðu að mati þeirra félaga allar helstu stofnanir íslenska ríkisins á sviði efnahagsmála auk innlendra og erlendra lögfræðistofa og endurskoðunarskrifstofa. Ávinningur þessara aðila af samsærinu er óljós og óútskýrður.

Ærandi þögn formanna

Hvorugur formanna hægriflokkanna hefur tjáð sig um niðurstöðu rannsóknar umboðsmanns Alþingis á Lekamálinu. Samanlagt eru þeir með 9 aðstoðarmenn sem hafa án nokkurs vafa lesið skýrslu umboðsmanns rækilega auk þess sem þingmenn flokka þeirra sátu nefndarfundi með umboðsmanni um málið strax og það var gert opinbert. Þeim fundum var sjónvarpað til allra landsmanna auk þess sem nokkrir fjölmiðlar hafa gert málinu góð skil. Það er því meira en lítið ólíklegt að formennirnir hafi ekki haft færi á því að kynna sér málið og tjá sig um það.
En stundum er líka best að þegja þó þögnin sé ærandi.
Vonandi lærir þjóðin þó eitthvað af þessu.

Áfall fyrir Hönnu Birnu

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis á rannsókn á þætti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Lekamálinu er í stuttu máli sú að hún og liðsmenn hennar í Innanríkisráðuneytinu reyndu með óeðlilegum hætti að hafa áhrif á rannsókn málsins. Umboðsmaður er þeirrar skoðunar að „að efni samskipta innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki samrýmst þeim reglum sem ráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar.“ Það er jafnframt niðurstaða umboðsmanns að Hanna Birna hafi sem ráðherra reynt að leiða rannsókn málsins á villigötur með óskýrum og ónákvæmum svörum og tafið úrlausn málsins.
Hverju ætli þeir svari nú sem hafa lagt allt í sölurnar  til að verja ráðherrann og gerðir hennar í málinu?

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS