Pólitísk aftaka

 Það komu fram merkilegar upplýsingar um húsnæðismálafrumvörp Eyglóar Harðardóttur í fréttum RÚV í kvöld. Í fyrsta lagi að þau færu gegn markmiðum sínum og myndu helst gagnast húseigendum og tekjuháu fólki, næðu þau fram að ganga. Í öðru lagi kom fram að fréttastofa RÚV hefði undir höndum umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvörpin.
Samkvæmt þessu liggur fyrir að eftir tveggja ára linnulausa yfirlegu hefur Eygló Harðardóttir, að mati fjármálaráðuneytisins, sent frá sér ónýtt lagafrumvarp um húsnæðismál. Til að undirstrika það hefur umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið verið lekið til fjölmiðla. Tilgangurinn getur aðeins verið sá að taka Eygló pólitískt af lífi.
Það sýnist mér Bjarna Benediktssyni hafa tekist betur en margt annað.

 

Forsætisráðherra rassskelltur

Formaður samninganefndar ríkisins segist sækja umboð sitt til fjármálaráðherra, ekki annarra. Formenn stéttarfélaga opinberra starfsmanna segjast ekki taka mark á öðrum en þeim sem hafi umboð fjármálaráðherra til að semja.
Aldrei áður hefur forsætisráðherra Íslands verið rassskelltur jafn rækilega og í fréttum sjónvarpsins í kvöld. Enginn deiluaðila á vinnumarkaðinum tekur mark á orðum forsætisráðherra. Hann má segja hvað sem er þeirra vegna.
Hann er fullkomlega marklaus. 

Af hverju segir hann þá ekki af sér?

 Við skulum gefa okkur eitt augnablik að forsætisráðherrann sé ekki jafn stjörnugalinn og margir vilja halda. Það sé því rétt mat hjá honum að aðgerðir stéttarfélaganna í landinu séu flokkspólitískar og beinist gegn ríkisstjórn hans frekar en að bæta kjör fólksins í landinu.
Þá er staðan svona:
Níu af hverjum tíu landsmanna styðja kröfur stéttarfélaganna og aðgerðir þeirra. Nærri 100 þúsund launþegar hafa þá tekið höndum saman um að koma ríkisstjórninni frá og eru tilbúnir að fara í harðar verkfallsaðgerðir í þeim tilgangi.

Fáheyrð framganga forseta Alþingis

  Margir bundu vonir við að Einar Kristinn Guðfinnsson yrði góður þingforseti. Þær vonir hafa að engu orðið. Hann er sami gamli flokkshesturinn sem hann hefur alltaf verið og setur flokkinn sinn ævinlega framar öðru. Steininn tók svo úr á dögunum þegar Einar frestaði atkvæðagreiðslu í þinginu, ekki vegna þess hve fáir þingmenn voru á staðnum, heldur vegna þess hve fáir stjórnarliðar voru í húsi. Forseti þingsins frestaði því atkvæðagreiðslu þar sem hann sá fram á að niðurstaðan yrði flokknum hans ekki að skapi. Þetta er fáheyrt og þingforseta til skammar.

Þessi vanþakkláta þjóð

„Sífellt minnkandi traust í skoðanakönnunum þrátt fyrir góðan árangur í efnahagsmálum kann að skýrast að einhverju leyti á rofi milli raunveruleika og skynjunar.“ (SDG forsætisráðherra)

Sjáiði ekki veisluna? Finniði ekki þefinn af veisluföngunum? Heyriði ekki óminn af glasaglaum og gleðisöngvum? Af hverju eru ekki allir glaðir? Er raunveruleikaskyn ykkar orðið svona brenglað? Skynjið þið ekki veruleikann með sama hætti og forsætisráðherrann okkar?
Þessa vanþakkláta þjóð ...

Hrokagikkurinn úr Garðabænum missir tökin

 Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hjólaði af fullum krafti í launafólk í dag. „ ... þetta er sundraður hópur sem við erum að tala við og það er engin ein lína, engin ákveðin krafa, um tiltekin mál sem gætu komið til hjálpar,“ segir Bjarni um þann stóra og ólíka hóp landsmanna sem þessa dagana stendur í harðvítugum deilum um kaup og kjör. Þetta eru kuldalegar kveðjur til launafólks frá fjármálaráðherra landsins.

Hvað gerum við þá?

 Orð Magnúsar Péturssonar ríkissáttasemjara (link is external) um stöðuna í kjaraviðræðunum hafa vakið verðskuldaða athygli. Magnús segir að stór ágreiningsmál í þjóðfélaginu hafi neikvæð áhrif á kjaraviðræðurnar. Orðrétt sagði Magnús í viðtali við RÚV: „Ég held að það sé heilmikil ólga í samfélaginu. Við sjáum átök hér um fjölmörg málefni, ekki bara um kaupið heldur um ýmis önnur atriði í samfélaginu. Það er skipting auðlindanna, arðurinn af auðlindum, hvernig á að skipta því. Það eru átök eða ágreiningur milli hópa; hver er betur settur en annar. Þannig að það er ágreiningur um fjölmargt í samfélaginu, sem að ég er alveg sannfærður um að hefur áhrif á stöðu kjaraviðræðna.“

Erfið sönnunarbyrði

 Það getur verið erfitt að sanna magabólgur á menn. Ég veit allt um það. Mér varð einu sinni á að opinbera grun minn um að Jón Gunnarsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, væri með magabólgur í þingsal. Það voru mikil mistök hjá mér. Bað ég Jón síðan afsökunar á öllu saman. Þingflokkar hægriflokkanna funduðu svo um málið og fannst afsökunarbeiðni mín ekki nógu einlæg. Í refsingarskyni ákváðu þingmenn flokkanna síðan að hunsa mig í umræðum á Alþingi. Það var lítil hefnd í því fannst mér.

Hvað heldur maðurinn að hann sé?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að nái kröfur launþega fram jafngildi það því að hann þurfi að biðja Seðlabankann um að hækka vexti: „Það væri, eins og ég hef áður sagt, jafngildi þess að biðja mig um að skrifa bréf til Seðlabankans og fara fram á vaxtahækkun.
Hvað heldur maðurinn að hann sé?
Lögum samkvæmt er það sérstök peningastefnunefnd sem ákvarðar vexti í landinu. Fjallað er um hlutverk peningastefnunefndar í 4.gr. laganna. Þar segir m.a.: Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika.“

Forsætisráðherra hótar launafólki

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hótaði launafólki því á dögunum að ef það stillti ekki launakröfum sínum í hóf yrði verðtryggingin ekki afnumin eins og hann hafði áður lofað.
Nú hótar hann því að það verði engir samningar gerðir við launafólk nema þingmenn afnemi rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Þessi maður er beinlínis að verða hættulegur íslensku samfélagi.
Það þarf að koma honum frá.
Því fyrr, þeim mun betra.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS