Móðgun við samfélagið og söguna

Það er fullkomlega eðlilegt að ráðherra skipi trúnaðarmenn og skoðanabræður sína til að fylgja eftir stefnumálum flokks og stjórnar í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda. En það er algjörlega út í hött að skipa heilu ráðin og stjórnirnar með þeim hætti eins og Illugi Gunnarsson hefur gert í stjórn LÍN. Þannig útilokar ráðherrann að yfirlögðu ráði öll skoðanaskipti og rökræður um mikilvægan málaflokk og kemur í veg fyrir nauðsynlega þróun.
Það er einnig fullkomlega eðlilegt að ráðherrann skipi hæfustu einstaklinga sem í boði eru til forystu í þeim málaflokkum sem hann vill leggja sérstaka áherslu á. En það er fullkomlega galið að hefja að nýju til vegs og virðingar einstaklinga sem hafa hlotið þann dóm sögunnar að hafa brugðist svo rækilega í starfi sem nýr stjórnarformaður LÍN hefur gert. Það er móðgun við samfélagið og þau þúsund heimila, einstaklinga og fyrirtækja sem eiga um sárt að binda vegna getuleysis og vanhæfni viðkomandi í aðdraganda Hrunsins. Ekki síst í ljósi þessara ummæla sem sýna betur en margt annað hvað Flokksmenn virðast orðnir öruggir með sig og staðráðnir í því að endurskrifa söguna.
Illugi Gunnarsson virðist vera orðin ígildi Sigurðar Inga þeirra sjálfstæðismanna.