Það er umtalsverður gassagangur á tvíeykinu á efstu hæðinni á Skúlagötu 4 þar sem áður var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í fréttum RÚV segist nýi sjávarútvegsráðherrann ætla að „… að breyta lögum um sérstakt veiðigjald strax“, sem um margt minnir á loforðið um skuldaniðurfellingu húsnæðislána strax – fyrir kosningar – en virðist ætla að verða minna úr.
Þar næst mætir iðnaðarráðherrann af sama gangi og tilkynnir hún muni láta „einfalda allt regluverk…“ og draga þannig úr „óþarflega íþyngjandi kröfum …“ og jafnframt sé verið að fara „kerfisbundið yfir allt regluverk ráðuneytisins …“ til að draga úr eftirliti og veseni.
Og áður en maður veit af dúkkar landbúnaðarráðherrann upp og segir af og frá að það verði þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum að ESB. Það sé hreinlega ekki á dagskrá og „eitthvað stórkostlegt þurfi að gerast í heiminum“ ef þjóðin eigi að fá að kjósa um það mál.
Ég held að við eigum öll að vera þakklát fyrir að ráðuneytinu var ekki splittað upp í fleiri hluta. Það hefði t.d. verið kostulegt ef umhverfisráðherrann væri með skrifstofu á sömu hæð.
Það hefði þá líklega verið óþarfi að kalla þing saman til skrafs og ráðagerða.