Mestu kosningasvik sögunnar?

Mér heyrðist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segja í fréttum RÚV í gær að ríkisstjórnin myndi „vilja gefa til kynna“ hvernig ætti að standa að stóru málunum, t.d. skuldaleiðréttingu heimilanna. En var ekki viss. Ég hlustaði því aftur á viðtalið og las fréttina á RÚV. Þetta var þá ekki misheyrn hjá mér. Hann sagðist myndi vilja gefa eitthvað til kynna varðandi skuldamál heimilanna í sumar.
Ég sem hélt að þetta hefði allt legið ljóst fyrir, framsóknarleiðin væri kristaltær og skýr. Á vefsíðu formannsins segir að annaðhvort verði mynduð ríkisstjórn um stefnu framsóknarheimilanna um skuldamál heimilanna eða gegn þeim, þ.e. bæði framsókn og heimilunum. Þar ekkert gefið til kynna heldur talað skýrt og vafningslaust: Þetta er einfalt: Það þarf að skipta eignum þrotabúanna. Það þjónar hagsmunum allra. Samhliða þeim uppskiptum verður hægt að aflétta gjaldeyrishöftum og koma til móts við skuldsett heimili og bæta ríkinu og velferðarkerfinu það tjón sem leiddi af hruninu sem nú er verið að gera upp. Við höfum einstakt tækifæri til að bæta tjón undanfarinna ára. Það tækifæri má ekki glatast!”
Ef einhverjum hefur fundist þetta vera óskýrt þá tekur höfundur framsóknarleiðarinnar af allan vafa á sinni síðu: Til að afstýra misskilningi, er rétt að taka fram að þótt lánveitanda yrði greitt á 20 árum, kæmi höfuðstólslækkunin strax til góða fyrir lántakendur.”
Nú segist forsætisráðherrann hinsvegar vilja gefa heimilunum eitthvað til kynna.
Tíu dögum frá því ríkisstjórn hægriflokkanna tók við völdum og viku áður en nýtt þing kemur saman hefur forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar svikið stærsta kosningaloforð sögunnar.
Loforðið stóra, þetta einfalda og skýra sem ekki var hægt að misskilja hefur nú umbreyst í að “gefa til kynna” hvort og þá hvernig mögulegt væri að gera eitthvað.
Mér er sem ég heyri snarkið í eldunum á Austurvelli.