Enn dregur úr efndum stóru loforðanna

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær að Hrunskerðingar bótakerfisins yrðu leiðréttar – á kjörtímabilinu. Jafnvel mætti búast við að eitthvað í þá áttina gæti gerst strax í sumar. Í aðdraganda kosninganna var hinsvegar lofað fullum bótum - strax miðað við það sem hér kemur fram?
En látum það liggja á milli hluta.
Það var yfirlýst markmið fyrri ríkisstjórnar að um leið og mögulegt væri fengi velferðar- og bótakerfið bætur upp í það sem Hrunið tók. Við það hefur verið staðið. Í fjárlagafrumvarpi síðasta árs segir m.a. um bótakerfið (bls. 209):
„Eins og áður segir var ákveðið að hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga mjög mikið á þessu ári, eða um 8,1%, með hliðsjón af krónutöluhækkun lægstu launa í kjarasamningum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækkun bóta á næsta ári verði 3,5% í samræmi við almenna prósentuhækkun í kjarasamningum á vinnumarkaði. Uppsöfnuð hækkun bóta verður þar með orðin nálægt 12% á hálfs árs tímabili.“
Næst á undan þessum kafla er farið ítarlegra í þessi mál. Þetta þýðir m.ö.o. að bætur hækkuðu talsvert umfram verðlag á tímabilinu og þannig var hafin endurgreiðsla á skerðingunni sem Hrunið leiddi af sér, eins ætlunin var alltaf að gera.
Í endurskoðaðri efnahagsáætlun sem fylgdu fjárlögum 2012 er ítarlega fjallað bótakerfið. Má þar m.a. benda á bls. 38: „Aukin útgjöld samanborið við fjárlög 2011 stafa fyrst og fremst af um 8,3 mia.kr. hækkun bóta almanna– og atvinnuleysistrygginga …“ Á bls. 46: „Ljóst er að þessar launa– og verðlagsforsendur hafa ekki staðist þar sem áætlað er að á árinu 2011 hækki bætur almanna– og atvinnuleysistrygginga vegna nýrra kjarasamninga um 8,1% … Því til viðbótar fengu bóta– og launþegar kr. 75.000 eingreiðslur á árinu sem ekki var reiknað með í fyrri áætlun.
Rétt er að taka fram að þetta þýðir þó engan veginn að bótakerfinu hafi verið bættur skaðinn sem Hrunið olli. En öfugt við það sem ráða má af fréttum hafa þegar verið tekin mikilvæg skref í þá áttina.
Miðað við orð félagsmálaráðherra hefur ný ríkisstjórn engar aðrar fyrirætlanir í þessum málum umfram þær sem þegar hafa verið ákveðnar, þ.e. að leiðrétta kjör bótaþega á næstu árum eins og þegar var byrjað að gera og ekkert óeðlilegt við það.
En þá eiga menn líka að segja það en ekki byggja upp óraunhæfar væntingar um annað.