Á fimmta degi ríkisstjórnar hægriflokkanna lýsir nýr fjármála- og efnahagsráðherra því yfir að við munum búa við gjaldeyrishöft til frambúðar. Fyrir réttum mánuði sagði sá hinn sami að hann sæi fyrir sér að hægt yrði að afnema höftin á „næstu mánuðum“. Það er engu líkara en raunveruleikinn hafi náð að narta í hælanna á ráðherranum eftir að hann tók við embætti.
Það er hægt að fyrirgefa pólitískum sakleysingja að þurfa að éta ofan í sig öll sín stærstu loforð innan viku frá því hann tók við völdum. En hér er um að ræða formann í stærsta stjórnarmálaflokki landsins, gömlum og rótgrónum valdaflokki sem á að vita betur og vissi betur.
En það þjónaði ekki markmiðum hans fyrir kosningar að tala með þeim hætti sem hann gerir núna.