Klassísk hægristefna Silfurskeiðabandalagsins

Í stefnuyfirlýsingu Silfurskeiðabandalagsins segir að æskilegt sé (takið eftir orðalaginu) að nýta tækifærið sem gæti skapast (enn og aftur orðalagið) í samningum við kröfuhafa til að lækka höfuðstól lána og jafnframt í leiðinni að breyta þeim úr verðtryggðum í óverðtryggð lán. Þannig mætti koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum aukist verulega (bls. 5).
Þetta þýðir á mannamáli að gangi það eftir sem æskilegt er að gæti gerst, mun greiðslubyrði óverðtryggðra lána aukast – en þó vonandi ekki verulega, eins og segir í texta silfurkeiðunganna.
Með öðrum orðum: Staða þeirra sem nú þegar eru í greiðsluvanda mun því versna ef þetta gengur eftir. Á súluritinu hér til hliðar sést vel að þetta er tekjulægsti hópur landsmanna, sá sem hefur úr minnstu að moða og getur illa staðið í skilum.
Tekjuhái hópurinn á hins vegar sjaldan í greiðsluvanda (súlurnar lengst til hægri) og ræður vel við að greiða af skuldum sínum þó háar séu. Skuldir þessa hóps munu lækka og neyslusvigrúm þeirra aukast ef farið verður eftir sumarhallaformúlunni sem leiðtogar þjóðarinnar kokkuðu upp til hliðar við vöfflubaksturinn um hvítasunnuna. Vöfflurnar hafa þeir svo bragðbætt með afnámi auðlegðarskattsins sem eingöngu gagnast auðugusta hópi samfélagsins sem hefur þá fengið tvöfaldan skammt frá ríkisstjórninni sinni, skuldalækkun og skattalækkun.
Niðurstaðan er því sú að vonir þjóðarleiðtoganna eru bundnar við að hagur þeirra tekjulægstu versni ekki mikið og hinir ríku verði ríkari.