Fullkomið uppnám í skuldamálum heimilanna

"Engar nefndir, enga starfshópa, engar tafir, aðeins aðgerðir í þágu heimilanna."

Þetta voru orð Bjarna Benediktssonar á landsfundi sjálfstæðisflokksins í febrúar. Nú liggur stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar hægriflokkanna fyrir og þá er annað hljóð komið í strokkinn. Reyndar á ekki að setja neina starfshópa á fót um skuldavanda heimilanna og enga nefnd heldur. Lykilorðin í kaflanum um heimilin eru „að öllum líkindum“ – „heldur þeim möguleikum opnum“ –  „ æskilegt er“ .

Það á sem sagt ekki að gera neitt.

Með stefnuyfirlýsingunni er búið að setja skulda- og lánamál heimilanna ásamt ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda í fullkomið uppnám. Fyrir kosningar var lofað stórkostlegum aðgerðum í skuldamálum, upp á mörg hundruð milljarða, án þess að útskýra hvernig á að gera það. Það er enn óútskýrt þrátt fyrir að ríkisstjórn hafi verið mynduð um þessi miklu loforð. Skuldamál heimilanna hafa verið sett í meiri óvissu en nokkru sinni áður frá Hruninu haustið 2008. Nú veit enginn hvað mun gerast. Það er versta staða sem hægt er að hugsa sér að vera í. Heimilin munu bíða eftir að loforð sem ekki er búið að útfæra hvernig á að standa við verður efnt. Fasteingamarkaðurinn mun bíða eftir útfærslum. Fjármálastofnanir munu halda að sér höndum, erlendir aðilar sömuleiðis og bíða eftir útfærslum og því hvort fjármunir þeirra verði öruggir hér á landi.

Alþjóðlegir lánamarkaðir munu stíga varlega til jarðar við að lána eða endurfjármagna lán ríkisins og stórra fyrirtækja þar til fyrir liggur hvort og þá hvernig á að efna stóru orðin um skuldaniðurfellingar. Mörg hundruð milljarða loforð svífur í loftinu án þess að nokkur viti hvernig á að efna það. Á meðan svo stórt mál vofir yfir okkur geta afleiðingarnar hæglega orðið þær að hagkerfið snöggkólni, verðbólga aukist, krónan veikist og lánin hækki enn frekar. Það verða fyrst og síðast heimilin í landinu sem munu líða fyrir það.

Silfurskeiðabandalagið hefur hins vegar tímasett hvenær á að afnema auðlegðarskattinn og veiðigjaldið.

Það stóð ekki á því.